Skip to main content

Hvernig verða ríki til? Ísland og Noregur á 10.–13. öld

Hvernig verða ríki til? Ísland og Noregur á 10.–13. öld - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
22. mars 2018 16:30 til 17:30
Hvar 

Lögberg

101

Nánar 
Fyrirlesturinn verður fluttur á íslensku og er öllum opinn. 

Fyrirlestrar Miðaldastofu Háskóla Íslands

Orri Vésteinsson

Hvernig verða ríki til?

Ísland og Noregur á 10.–13. öld

Fimmtudaginn 22. mars 2018 kl. 16.30

Lögbergi 101

Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd um 1260 og urðu með því þáttaskil í stjórnmálasögu landsins. Skoðanir á aðdraganda Gamla sáttmála hafa löngum verið skiptar en yfirleitt hefur þó verið gengið út frá því að líta eigi á Ísland þjóðveldisaldar sem sjálfstæða pólitíska einingu. Í fyrirlestrinum verður fjallað um þessa hugmynd út frá almennum kenningum um uppruna ríkisvalds. Þökk sé óbilandi áhuga íslenskra sagnaritara á norskum stjórnmálum er þróun ríkisvalds í Noregi frá 10. öld til þeirrar 13. betur þekkt en flestar aðrar ríkjamyndanir á sama tímabili. Þessi áhugi spratt raunar ekki af engu heldur er hann ein af mörgum birtingarmyndum þess að íslensk stjórnmál voru samofin norskum. Íslensk þjóðfélagsskipan hefði ekki haft það form og hefði ekki getað þróast eins og hún þróaðist nema af því að hún var einmitt ekki sjálfstæð og sérstök heldur hluti af stærri heild.

Ástæðan fyrir því að Ísland varð ekki formlegur hluti af Noregsríki fyrr en um 1260 var að norsku konungarnir höfðu fram undir það einfaldlega ekki möguleika á að skipa málum á Íslandi en um leið og það örlaði á getu til þess — um 1220 — riðlaðist hið innlenda valdajafnvægi á skömmum tíma vegna viðleitni íslenskra valdsmanna til að skapa sér stöðu í nýjum veruleika. Þeir börðust ekki gegn áhrifum Noregskonungs heldur fyrir því að njóta ávaxtanna af vaxandi styrk hans. Samband þeirra við konung stóð á gömlum merg og var forsenda fyrir því valdaskiptingarkerfi sem íslenskir höfðingjar höfðu komið sér upp.

Umræða um þessi efni einkennist af því að lagður er mismunandi skilningur í hugtök eins og ríki og konungsvald. Hin íslenska hefð er að leggja mikið upp úr lögfræðilegum skilgreiningum á stjórnskipan, en frá þeim sjónarhóli er hægt að tala um ríki (sbr. Free state) og þjóðveldi eða goðaveldi þegar á 10. öld. Almennar kenningar um ríkisvald, hvort sem er í mannfræði, sagnfræði eða þjóðfélagsfræði gera hins vegar yfirleitt kröfur til ákveðinnar virkni til að tala megi um ríki, atriði á borð við virkt framkvæmdavald, getu til að skattleggja og heimta skatt, og einkarétt á beitingu ofbeldis. Samkvæmt síðastnefndu kröfunni er tæplega hægt að tala um ríkisvald í Evrópu fyrr en á 16. öld, en hinar tvær sýna berlega að það er tómt mál að tala um ríkisvald í Noregi, hvað þá Íslandi, fyrir seinni hluta 13. aldar. Löngu áður höfðu hins vegar hugmyndir og valdatengsl mótast sem skilgreindu hvaða fólk gat átt saman um slík mál og í því höfðu Íslendingar spyrt sig rækilega saman við Norðmenn allt frá 10. öld ef ekki fyrr.

Orri Vésteinsson er fæddur 1967 og lærði sagnfræði við Háskóla Íslands og sagnfræði og fornleifafræði við University College London þaðan sem hann lauk doktorsprófi 1996. Hann hefur kennt fornleifafræði við Háskóla Íslands frá 2002. Rannsóknir hans snúa m.a. að íslenskri samfélagsgerð á miðöldum, landnámi, byggðaskipan og mótun samfélagsstofnana.

Fyrirlesturinn verður fluttur á íslensku og er öllum opinn. 

Miðaldastofa Háskóla Íslands

The University of Iceland Centre for Medieval Studies

miðaldastofa.hi.is

Orri Vésteinsson er fæddur 1967 og lærði sagnfræði við Háskóla Íslands og sagnfræði og fornleifafræði við University College London þaðan sem hann lauk doktorsprófi 1996. Hann hefur kennt fornleifafræði við Háskóla Íslands frá 2002. Rannsóknir hans snúa m.a. að íslenskri samfélagsgerð á miðöldum, landnámi, byggðaskipan og mótun samfélagsstofnana.

Hvernig verða ríki til? Ísland og Noregur á 10.–13. öld