Skip to main content
30. nóvember 2017

Sýning um sælgætisneyslu

Þann 30. nóvember kl 16:00 opnar sýningin Ofgnótt á Háskólatorgi (neðri hæð) í Háskóla Íslands. Sýningin samanstendur af innsetningu eftir Andreu Arnarsdóttur, listamann og háskólanema, og er liður í meistaraverkefni hennar í hagnýtri menningarmiðlun. Umfjöllunarefni verksins er sælgæti.

Frá örófi alda hefur manneskjan leitað uppi allt sætt. Það var þó ekki fyrr en um 500 árum f.Kr. að Indverjar byrjuðu að vinna sykur og þangað má rekja upphaf sælgætisgerðar. Síðan þá hefur sælgæti komið víða við meðal annars á veisluborðum aðalsfólks. Breski aðallinn undir stjórn Elísabetar 1. var alræmdur og umtalaður fyrir sérstakar sælgætisveislur sínar þar sem allur veislukostur var í formi sælgætis.

Íslendingar neyta að meðaltali um 18 kg af sælgæti árlega. Í sýningunni verður þessi neysla Íslendinga myndgerð í formi hlaðborðs í anda veisluborða Elísabetar og verður gestum og gangandi boðið að taka þátt í því að borða af hlaðborðinu. Sýningin stendur yfir frá 30. nóvember til 6. desember.

sælgæti