Skip to main content
27. apríl 2017

Hvert er hlutverk hvala í lífríkinu?

""

Vísindamenn Háskóla Íslands vinna að ýmsum rannsóknum tengdum hvölum en þar má nefna samskipti hvala og lifnaðarhætti þeirra, hvalveiðar og hvalaskoðun. Þessi stærstu spendýr jarðar og hlutverk þeirra í lífríkinu verður til umræðu á málþingi sem fram fer í dag, fimmtudaginn 27. apríl, klukkan 13 til 16 á vegum Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík og franska sendiráðsins á Íslandi. Yfirskrift málþingsins er „What Is the Role of Whales in the Ecosystem?“ og fer það fram í sal N-132 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands.

Síðustu misserin hafa vísindamenn í auknum mæli beint sjónum sínum að hlutverki hvala í lífríkinu. Einn þeirra sem rannsakað hafa þetta um árabil er Joe Roman, rannsóknaprófessor við Rubenstein-náttúruvísindaskólann. Joe, sem lauk doktorsprófi í líffræðilegri og þróunarfræðilegri líffræði frá Harvard-háskóla árið 2003, stígur fyrstur á stokk á málþinginu og ræðir rannsóknir sínar á vistfræði stórhvala og hvernig fjölgun hvala getur endurreist lífríki sjávar. 

Einn þeirra vísindamanna innan Háskóla Íslands sem stundað hafa rannsóknir á hvölum er Marianne Rasmussen, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík. Hún tekur einnig til máls á ráðstefnunni og fjallar um hljóðumhverfi hafdjúpanna og hvernig hegðun hvala getur gagnast öðrum tegundum. 

Á málþinginu mun Gísli Víkingsson, sérfræðingur í uppsjávarlífríki hjá Hafrannsóknastofnun, enn fremur fjalla um vistfræðilegt hlutverk hvala sem rándýra og bráðar í vistkerfi hafsins, sem er mjög mismunandi eftir hafsvæðum. 

Í lokin verður boðið upp á pallborðsumræður með fyrirlesurunum þremur og að málþingi loknu býður franska sendiráðið þáttakendum og gestum upp á léttar veitingar. 

Málþingið fer fram á ensku og er öllum opið.

Sporður á hval og skip í fjarska