Skip to main content

Neysla á próteinfæðubótarefnum eykst mikið

Unnur Björk Arnfjörð doktorsnemi, Anna Sigríður Ólafsdóttir dósent og Sigurbjörn Árni Arngrímsson prófessor, öll við Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild

Neysla fæðubótarefna hefur aukist mikið á Íslandi en fyrir nokkru vann Unnur Björk Arnfjörð meistaraverkefni sem snerist um notkun próteinfæðubótarefna hjá 18 ára strákum í framhaldsskóla. Nú hefur rannsóknin verið útvíkkuð með það í huga að ná betur utan um þessa miklu neysluaukningu hjá ungu fólki á milli landskannana á mataræði árin 2002 og 2010. „Rannsóknin okkar núna er þannig nokkurs konar framhald af vinnu Unnar Bjarkar enda er athyglisvert að skoða bæði kyn og sjá hver þróunin hefur verið allra síðustu ár,“ segir Anna Sigríður Ólafsdóttir, dósent í næringarfræði og leiðbeinandi Unnar Bjarkar.

Að sögn Önnu Sigríðar gefur rannsóknin nú innsýn í neysluvenjur og notkun á próteinfæðu- bótarefnum hjá aldurshópi sem hefur verið nokkuð afskiptur þegar rannsóknir á fæðuvenjum og heilsu eru annars vegar. „Reyndar má segja að viðfangsefnið í sjálfu sér sé mjög lítið rannsakað miðað við hversu áberandi þessar vörur eru og hve almenn neysla þeirra er orðin.“ Unnur Björk, sem nú er í doktorsnámi, bendir á að markaðssetning þessara efna höfði oft sérstaklega til ungs fólks og kunni því að auka neysluna.

Unnur Björk Arnfjörð, Anna Sigríður Ólafsdóttir og Sigurbjörn Árni Arngrímsson

Neysla fæðubótarefna hefur aukist mikið á Íslandi en fyrir nokkru vann Unnur Björk Arnfjörð meistaraverkefni sem snerist um notkun próteinfæðubótarefna hjá 18 ára strákum í framhaldsskóla.

Unnur Björk Arnfjörð, Anna Sigríður Ólafsdóttir og Sigurbjörn Árni Arngrímsson

Að sögn Önnu Sigríðar eru prótein- pælingarnar nú unnar úr gögnum tveggja stærri rannsókna á íslenskum framhaldsskólanemum sem ná vítt og breitt til heilsufars og heilsu- eflingar. Þar á hún annars vegar við rannsóknina Heilsa og líðan framhaldsskólanema (HLíF) frá árinu 2008 og hins vegar HeF – Heilsueflandi framhaldsskólar sem er langsniðsrannsókn og hófst árið 2010. Gagnasöfnun vegna hennar mun ljúka vorið 2015.

„Stofnað var til þessara tveggja rannsókna af því að þessi aldurshópur hefur lítið verið rannsakaður. HLíF var þversniðsrannsókn og niðurstöður hennar gáfu til kynna að tímabært væri að fara af stað með íhlutunarrannsókn í þessum aldurshópi. Því var HeF hleypt af stokkunum,“ segir Sigurbjörn Árni Arngrímsson, prófessor í íþróttafræði, en þau Anna Sigríður stýrðu stóru rannsóknunum tveimur.

Unnur Björk segir að fyrstu niðurstöður úr nýju rannsókninni bendi til að próteinbætiefna- neysla sé algeng í framhaldsskólum, einkum á meðal stráka en það sé töluverður munur á notkun og neyslumynstri stelpna og stráka.

„Miðað við samanburðinn sem við höfum núna á milli ára þá virðist þeim fjölga jafnt og þétt sem nota próteinfæðubótarefni nær daglega. Tölurnar tvöfaldast ef bornir eru saman 18 ára nemendur 2008 við 2012, en dagleg neysla 2012 er margfalt algengari hjá strákum en stelpum eða 23% á móti 5% hjá stúlkum,“ segir Unnur Björk.

Anna Sigríður segir að tölurnar séu síðan umtalsvert hærri ef horft er til allra þeirra sem nota próteinfæðubótarefni einu sinni í viku eða oftar. „Við erum að safna gögnum núna og því verður forvitnilegt að sjá hvaða stefnu neyslan tekur. Eins viljum við vita hvort þessar vörur eru viðbót eða hvort þær komi í staðinn fyrir hefðbundinn mat.“