Um MA-nám í frönskum fræðum | Háskóli Íslands Skip to main content

Um MA-nám í frönskum fræðum

MA-nám í frönskum fræðum er að jafnaði tveggja ára nám eða 120 einingar. BA-próf með fyrstu einkunn í frönskum fræðum sem aðalgrein eða jafngildi þess veitir inngöngu í námið. Í meistaranámi í frönskum fræðum öðlast nemandi dýpri þekkingu á fræðasviði sínu og fær þjálfun í akademískum vinnubrögðum og í framsetningu efnis. Að námi loknu getur hann tekist á hendur doktorsnám í fræðigrein sinni. Námið er einstaklingsmiðað en inniheldur ákveðin kjarnanámskeið (30e) sem nemandi þarf að ljúka. Nemandi velur síðan námskeið/málstofur út frá áhugasviði sínu - í frönskum fræðum, sagnfræði, stjórnmálafræði, almennum bókmenntum, málvísindum, þýðingum, menningarfræði, heimspeki, einstaklingsverkefni, o.s.frv. - í samráði við umsjónarmann sinn.

Upplýsingar í kennsluskrá um framhaldsnám í frönskum fræðum

Nemendur eru hvattir til að taka hluta námsins við samstarfsháskóla erlendis, t.d. í Frakklandi, Belgíu eða Kanada. Kennarar í frönskum fræðum veita upplýsingar um þessa námsmöguleika og aðstoða nemandur við val á námskeiðum. Nám við erlenda háskóla er að hámarki metið til 60e. 

Skyldunámskeið:

  • Kenningar í hugvísindum
  • Einstaklingsverkefni. Stjórnkerfi, saga og menning
  • Tungumál og menning I
  • Einstaklingsverkefni. Málnotkun og framsetning: Franska
  • Tungumál og menning II
  • Bókmenntaþýðingar úr frönsku
  • Meistararitgerð í frönskum fræðum

Athugið að 

– vægi einstaklingsverkefna er að hámarki 30e.  

– heimilt er að taka allt að 30e í námskeiðum á meistarastigi í öðrum greinum. 

– lokaverkefni í MA-námi er að jafnaði 30e en nemandi getur sótt um að skrifa 40e/60e ritgerð til framhaldsnámsnefndar deildarinnar.

– full námsframvinda á einu misseri miðast við 30 einingar.

Þýðingafræði - franska
Í samstarfi við Íslensku- og menningardeild er boðið upp á nám í þýðingafræði og nytjaþýðingum. Hafið samband við verkefnastjóra Íslensku- og menningardeildar vegna fyrirspurna um Þýðingafræðinámið.

Doktorsnám í frönskum fræðum
Doktorsnám í frönskum fræðum er þriggja ára rannsóknatengt framhaldsnám þar sem nemandinn vinnur sjálfstætt að eigin rannsóknarverkefni. Umfang rannsóknaverkefnis skal vera 180 e og það getur náð inn á ólík svið fræðanna: bókmenntir, málvísindi, þýðingar, menningarfræði. Nám til doktorsprófs lýtur reglum um meistara- og doktorsnám á Hugvísindasviði Háskóla Íslands. Inntökuskilyrði er rannsóknatengt MA-próf í frönskum fræðum með fyrstu einkunn eða, eftir atvikum, sambærilegt próf í annarri tengdri grein en umsækjandi þarf einnig að sýna fram á góðan almennan árangur úr fyrra háskólanámi. Umsækjandi skal hafa gott vald á frönsku (C1) og ensku (B1/B2).

Markmið doktorsnáms í frönskum fræðum er að veita doktorsnemum sem besta og víðtækasta vísindalega þjálfun og undirbúning undir vísindastörf á fræðasviði sínu, t.d. háskólakennslu eða sérfræðistörf. Nauðsynlegt er að þessi þjálfun taki mið af bakgrunni hvers nemanda og því fræðasviði sem hann vill sérhæfa sig á.

Doktorspróf við Hugvísindasvið Háskóla Íslands veitir lærdómstitilinn philosophiae doctor, Ph.D.

Hægt er að hafa samband við verkefnastjóra deildar og verkefnastjóra alþjóðamála til að fá nánari upplýsingar um nám og skiptinám.