Létta læknum lífið | Háskóli Íslands Skip to main content

Létta læknum lífið

Hans Emil Atlason, BS frá Rafmagns- og tölvuverkfræðideild, Tómas Páll Máté og Guðmundur Már Gunnarsson, báðir BS frá Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild 

„Til þess að skurðlæknir geti sinnt sjúklingi í aðgerð þarf hann upplýsingar um ástand hans og þá einna helst í formi mynda úr t.d. röntgen og segulómun. Inni á skurðstofunni þarf síðan að stýra myndaupplýsingum á skjá fyrir framan lækninn. Það getur verið erfitt og tekið verðmætan tíma vegna þess að fylgja þarf ströngustu kröfum um hreinlæti. Með því að gera skurðlæknum kleift að stýra tölvum með búnaði sem les handahreyfingar án snertingar er meiri tíma varið í að fylgjast með og sinna sjúklingum í aðgerð.“ Þetta segir Hans Emil Atlason sem vinnur ásamt félögum sínum, Tómasi Páli Máté og Guðmundi Má Gunnarssyni, í fyrirtækinu Levo að þróun hugbúnaðar sem gerir læknum kleift að eiga samskipti við tölvur í sótthreinsuðum skurðstofum.

Hans, Tómas og Guðmundur

„Með því að gera skurðlæknum kleift að stýra tölvum með búnaði sem les handahreyfingar án snertingar er meiri tíma varið í að fylgjast með og sinna sjúklingum í aðgerð.“

Hans Emil Atlason, Tómas Páll Máté og Guðmundur Már Gunnarsson

Þremenningarnir luku allir BS-prófi frá Háskóla Íslands vorið 2014, Hans í rafmagns- og tölvuverkfræði en Tómas og Guðmundur í hugbúnaðarverkfræði. Tómas bendir á að fólk verji miklum tíma við tölvu í vinnu og frístundum og auðveld og frjálsleg samskipti við tölvur auki lífskjör og skilvirkni. Hann segir kveikjuna að verkefninu áhuga þeirra félaga á nýjum leiðum til að tala við tölvur. „Við skoðuðum ýmsan búnað sem þegar er til, t.a.m. hreyfiskynjara og vöðvarafrit. Þá komum við auga á búnað í þróun frá Thalmic Labs í Kanada sem lofaði góðu. Búnaðurinn er armband sem haft er á framhandlegg notandans og nemur vöðvavirkni og hreyfingar. Upplýsingarnar eru svo notaðar sem skipanir til tölvu. Af samtölum okkar við skurðlækna kom í ljós að hugbúnaður, sem nýtir upplýsingar frá armbandinu til þess að stýra læknisfræðilegum myndum, gæti leyst vandamál sem hefur plagað læknana lengi,“ segir Tómas.

Þeir félagar stofnuðu fyrirtækið Levo á grunni hugmyndarinnar en það var meðal tíu sprotafyrirtækja sem fékk fjármögnun og stuðning frá viðskiptahraðlinum Startup Reykjavík sumarið 2014.

Guðmundur segir þörf á nýrri hugsun í tengslum við tölvur og hugbúnað. „Með snertilausum samskiptum hættum við að skorða lækna við ákveðnar hreyfingar og stellingar og opnum á frekari stjórn þeirra á vinnuumhverfi sínu,“ segir Guðmundur að lokum.

Leiðbeinandi: Magnús Örn Úlfarsson, prófessor við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild.

Netspjall