Skip to main content

Kynjamismunun í efnismenningu safna

Arndís Bergsdóttir, doktorsnemi við Félags- og mannvísindadeild

Það ólíka vægi sem raddir kynjanna hafa í efnismenningu safna og birtist í því sem er og er ekki til staðar á söfnum er viðfangsefni Arndísar Bergsdóttur í doktorsnámi hennar í safnafræði. „Meðal annars hefur verið bent á að konur hafi einfaldlega skilið eftir sig færri hluti því það sem þær hafa gert, hafi annaðhvort verið nýtt eða étið upp til agna,“ segir Arndís um þennan misstóra hlut kynjanna á menningarminjasöfnum landsins.

Hún bætir við að í verkefninu sé leitað svara við spurningum eins og hvernig fjarvera, eða það sem ekki er efnislega fyrir hendi, komi fyrir í sýningum safna og hvernig hægt sé að virkja slíka fjarveru sem hluta af efnismenningu menningarminjasafna. „Hluturinn sem við notum til að varpa ljósi á viðfangsefnið er álfatyppi sem er til sýnis á Hinu íslenska reðasafni.“

Arndís Bergsdóttir

„Meðal annars hefur verið bent á að konur hafi einfaldlega skilið eftir sig færri hluti því það sem þær hafa gert, hafi annaðhvort verið nýtt eða étið upp til agna.“

Arndís Bergsdóttir

Arndís segir kveikjuna að doktorsverkefninu vera þá tilfinningu sem hafi vaknað hjá henni þegar hún gekk um sýningar margra safna að mjög halli á konur í frásögnum safnanna. Einn hluti rannsóknarinnar snúi að Hinu íslenska reðasafni og þá sérstaklega álfatyppinu sem þar er að finna í krukku. „Þessi ósýnilegi hlutur sem þó hefur ákveðna viðveru. Hann er ekki þarna en samt sem áður er hann þarna sem (ó)efnisleg heimild fyrir ákveðnum frásögnum sem snerta safngesti,“ bendir Arndís á.

Arndís ræddi við safngesti á Reðasafninu og þau samtöl leiða í ljós að það sem er fjarverandi og hið ósýnilega virðist áþreifanlegt í hugum gesta. „Nær allir safngestir litu á þetta „ekkert” sem er í krukkunni sem „eitthvað“ með því að nálgast það með vangaveltum og innsæi fremur en þeim röklegu nálgunum sem eru algengar á menningarminjasöfnum. Það bendir til þess að á sýningum safna hafi hið óefnislega ekki síður vægi fyrir safngesti en hið efnislega og því lítil ástæða til að sleppa því. Þvert á móti getur fjarvera falið í sér sterka pólitíska viðveru og varpað ljósi á þá kynjapólitísku þræði sem liggja djúpt í sögum samfélagsins og þeim frásögnum sem settar eru fram á söfnum,“ segir Arndís um þessa rannsókn sem ætlað er að vera fræðilegt framlag á sviði safnafræði og kynjafræði.

Leiðbeinandi: Sigurjón Baldur Hafsteinsson, dósent við Félags- og mannvísindadeild.