Skip to main content

Kransæðavíkkanir auðveldari körlum

Guðný Stella Guðnadóttir, doktorsnemi við Læknadeild

„Doktorsverkefni mitt fjallar um árangur meðferðar hjá konum og háöldruðum með brátt kransæðaheilkenni sem fara í kransæðaþræðingu og -víkkanir á Íslandi og í Svíþjóð. Þessir hópar eiga það sameiginlegt að gögn skortir um þá í rannsóknum,“ segir Guðný Stella Guðnadóttir, doktorsnemi við Læknadeild.

Upphaf verkefnisins má rekja til þess þegar Guðný hóf að vinna með gögn úr sænskri gæðaskrá, SCAAR. Allir sjúklingar sem gangast undir kransæðaþræðingu og/eða -víkkun í löndunum tveimur eru skráðir í SCAAR. „Enginn er undanskilinn sem gerir skrána að kjörverkfæri til að skoða alla sjúklingahópa,“ segir Guðný en viðfangsefnið valdi hún bæði vegna skorts á upplýsingum um þessa sjúklingahópa í rannsóknum og í þeirri von að betrumbæta meðferð þeirra.

Guðný Stella Guðnadóttir

„Doktorsverkefni mitt fjallar um árangur meðferðar hjá konum og háöldruðum með brátt kransæðaheilkenni sem fara í kransæðaþræðingu og -víkkanir á Íslandi og í Svíþjóð.“

Guðný Stella Guðnadóttir

Guðný segir að fyrstu niðurstöður hafi sýnt að konur glími við meiri fylgikvilla en karlar í kjölfar kransæðavíkkana. „Í framhaldinu ætlum við m.a. að skoða hvaða þættir geti sagt fyrir um fylgikvilla. Enn fremur vinnum við að því að kortleggja betur hópinn sem er háaldraður því meðferð þess hóps er flókin. Til dæmis glíma aldraðir við fleiri fylgikvilla við inngrip en þeir sem yngri eru, en jafnframt útbreiddari kransæðasjúkdóm og aukna þörf á inngripum. Þeir hafa því jafnvel meira gagn af meðferðinni en þeir sem yngri eru,“ segir hún.

„Rannsóknin færir okkur fleiri verkfæri til að vega og meta kosti og galla inngripa og mismunandi tækni og aðferða og velja sjúklinga eða hópa sem mismunandi meðferðarúrræði gagnast mest,“ segir Guðný að endingu.

Leiðbeinandi: Þórarinn Guðnason, hjartasérfræðingur við Landspítala – háskólasjúkrahús.