Skip to main content

Hvetjandi fyrir börn að lesa fyrir hunda

Margrét Sigurðardóttir, M.Ed.-nemi við Uppeldis- og menntunarfræðideild

„Það var tilviljun að ég fór að rannsaka þetta efni,“ segir Margrét Sigurðardóttir, meistaranemi í uppeldis- og kennslufræði. Í meistararitgerð sinni skoðar hún hvort verkefnið „Lesið fyrir hund“ hafi áhrif á lestrarhæfni barna og hvort það hvetji til aukins lesturs. Margrét er æskulýðsfulltrúi og forstöðukona í félagsmiðstöðinni Selinu á Seltjarnarnesi en rannsóknina vann hún í samvinnu við Grunnskóla Seltjarnarness.

„Það var unglingsstúlka í félagsmiðstöðinni sem sagði mér frá því að í Bandaríkjunum kæmu börn og læsu fyrir hunda á bókasafni,“ segir Margrét og bætir því við að sér hafi strax fundist þetta áhugavert. Rannsókn af þessu tagi hefur aldrei verið gerð hér á landi og ákvað Margrét að ráðast í verkefnið í samstarfi við grunnskólann sem tók mjög vel í hugmyndina. „Ég spurði einnig stúlkuna og móður hennar hvort þær væru ekki til í samstarf og þær voru til í það.“

Margrét Sigurðardóttir

Í meistararitgerð sinni skoðar Margrét hvort verkefnið „Lesið fyrir hund“ hafi áhrif á lestrarhæfni barna og hvort það hvetji til aukins lesturs.

Margrét Sigurðardóttir

Í kringum verkefnið stofnaði Margrét félag sem hlaut nafnið Vigdís, vinir gæludýra á Íslandi, en það heldur utan um verkefnið. „Það er mikið undirbúningsferli sem á sér stað. Hundarnir eru metnir og eigendum þeirra eru kenndar kennsluaðferðirnar auk þess sem þeir skrifa undir trúnaðargögn,“ segir Margrét.

Margrét vann rannsóknina á árinu 2014 og voru börnin sem tóku þátt í henni öll í 3. bekk. „Við vorum að vinna með hentugleikaúrtak en börnin sem voru valin til að taka þátt áttu í einhverjum lestrarerfiðleikum eða voru komin með lestrarleiða. Krakkarnir komu einu sinni í viku í tíu til tólf skipti í félagsmiðstöðina. Þar hittu þau alltaf sama hundinn og sama leiðbeinandann,“ segir Margrét.

Niðurstöðurnar úr rannsókn Margrétar liggja ekki enn fyrir. „Ég nota veturinn til að skrifa ritgerðina þannig að endanlegar niðurstöður liggja fyrir vorið 2015,“ segir Margrét. Hún vonar að niðurstöður rannsóknarinnar verði hvatning fyrir skólasamfélagið að innleiða þessar kennsluaðferðir. „Það hafa fleiri skólar sýnt okkur og verkefninu áhuga en við viljum fara mjög hægt af stað vegna þess að það krefst mikils undirbúnings,“ segir Margrét að lokum.

Leiðbeinendur: Jóhanna Thelma Einarsdóttir, dósent í talmeinafræði, og Steinunn Torfadóttir, lektor við Kennaradeild