Skip to main content

Hreyfingarleysi vaxandi vandi

„Landfræðilegar greiningaraðferðir eiga nánast alls staðar erindi, ekki síst í rannsóknum sem tengjast lýðheilsu,” segir Karl Benediktsson prófessor í landfræði, sem nú vinnur að rannsókn á því hvort skipulag og umhverfi framhaldsskóla í Reykjavík hafi áhrif á daglega hreyfingu meðal nemenda. Meistaraneminn Herborg Árnadóttir vinnur að rannsókninni með Karli ásamt samstarfs- fólki á Menntavísindasviði og hjá Embætti landlæknis. 

Herborg Árnadóttir og Karl Benediktsson

„Hreyfingarleysi er vaxandi lýðheilsuvandamál. Íslendingar eru á meðal þeirra þjóða þar sem ofþyngd og tilheyrandi heilsufarsvandamál eru hvað algengust.“

Herborg Árnadóttir og Karl Benediktsson

„Hreyfingarleysi er vaxandi lýðheilsuvandamál. Íslendingar eru á meðal þeirra þjóða þar sem ofþyngd og tilheyrandi heilsufarsvandamál eru hvað algengust. Þetta hefur ekki verið sett í landfræðilegt samhengi áður hér á landi og út úr rannsókninni munu líklega koma mikilvægar ábendingar um borgarskipulag og gæði hins byggða umhverfis. Þetta er því þverfræðileg rannsókn í öllum skilningi, sem mér finnst ekki síst spennandi,“ segir Karl. 

Hreyfivenjur ráðast bæði af persónulegum atriðum og eins því hvaða tækifæri umhverfið býður upp á til virkrar hreyfingar. Þetta sýna fyrri rannsóknir. Herborg útskýrir: „Við notum landfræðileg upplýsingakerfi til að meta hversu auðvelt er að komast leiðar sinnar gangandi í kringum skólana, skoðum aðgengi nemenda að almenningssamgöngum, landnýtingu í grennd við skólana og hlutfall grænna svæða sem henta til allmennrar útivistar.“ Herborg er með grunnnám í arkitektúr að baki og kemur því með eina faglega vídd enn inn í rannsóknina.

Að sögn þeirra sýna bráðabirgðaniðurstöður að umhverfi miðborgarskólanna sé meira hvetjandi til hreyfingar en úthverfaskólanna þar sem bílamiðað skipulag hefur mótað hverfin. 

„Nú erum við að gera ítarlega könnun meðal úrtaks nemenda í nokkrum skólum, þar sem við spyrjum m.a. út í ferðamáta þeirra. Virkur ferðamáti, þ.e. að fara ferða sinna gangandi eða hjólandi, er meðal þess sem er mikilvægast fyrir daglega hreyfingu,“ segir Karl, sem hefur áður staðið fyrir rannsóknum á gæðum hjólaleiða í borginni.