Skip to main content
5. júní 2019

Viltu vinna meistaraverkefni á sviði sjálfbærni?

""

Í stefnu Háskóla Íslands, HÍ21, er lögð áhersla á framsækna sýn á nám og kennslu, sterka rannsóknarinnviði sem styðja þekkingarsköpun og alþjóðlegt samstarf og að starf háskólans hafi víðtæk áhrif og takist á við áskoranir samtímans. Í þessu ljósi verður sjálfbærnistefna Háskóla Íslands endurskoðuð og liður í því er aðfá yfirlit yfir hvar unnið er að sjónarmiðum sjálfbærrar þróunar í anda áherslna Sameinuðu þjóðanna.

Auglýst er eftir meistaranemum til að vinna 30 eða 60 eininga verkefni þar sem sjónum er beint að viðfangsefnum sjálfbærrar þróunar og sjálfbærnimenntunar á hverju fræðasviði Háskóla Íslands. Verkefnin verða unnin á háskólaárinu 2019–2020. Gögn verða greind með hliðsjón af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2015 en svigrúm verður einnig fyrir rýni út frá áhuga hvers meistaranema.

Um er að ræða tvö 30 eininga verkefni eða eitt 60 eininga verkefni á hverju fræðasviði háskólans. Sé um að ræða 60 eininga verkefni tekur það á báðum eftirtöldum þáttum:

• 30 eininga verkefni um námsframboð og inntak námskeiða með hliðsjón af sjálfbærri þróun og sjálfbærnimenntun.
• 30 eininga verkefni um inntak og áherslur rannsókna og þróunarverkefna með hliðsjón af sjálfbærri þróun og sjálfbærnimenntun.

Verklag: Meistaranemar frá öllum fræðasviðum munu taka þátt í námshópi sem myndaður verður undir leiðsögn kennara og hittist um það bil einu sinni í mánuði.

Umsóknarfrestur: Umsóknir skulu berast til Þorbjargar Söndru Bakke (thb@hi.is) verkefnastjóra fyrir 13. ágúst 2019 ásamt 500–1000 orða greinargerð um af hverju umsækjendur ættu að verða fyrir valinu, hver á sínu sviði.

Nánari upplýsingar veita Auður Pálsdóttir (audurp@hi.is) og Lára Jóhannsdóttir (laraj@hi.is).
 

nemendur á Háskólatorgi