Skip to main content
21. júní 2021

Viðurkenningar fyrir framúrskarandi námsárangur við Lagadeild

Viðurkenningar fyrir framúrskarandi námsárangur við Lagadeild - á vefsíðu Háskóla Íslands

Laugardaginn 19. júní síðastliðinn brautskráðust frá Lagadeild 85 nemendur við hátiíðlega athöfn í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal. Einn nemandi lauk LL.M. meistaraprófi í auðlindarétti, 41 nemandi lauk meistaraprófi í lögfræði (Mag. Jur.) og 43 nemendur luku BA-prófi.

Að venju bauð Lagadeild til móttöku daginn fyrir brautskráningu þar sem veittar voru viðurkenningar fyrir framúrskarandi námsárangur.

Trausti Fannar Valsson, forseti Lagadeildar, ávarpaði boðsgesti en að því búnu veitti Sigfríð Elín Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri, viðurkenningu bókaútgáfunnar Codex þeim nýnema sem stóðst öll námskeið fyrsta árs í fyrstu tilraun með hæstu meðaleinkunn. Að þessu sinni var Ylfa Helgadóttir með hæstu einkunn og fékk hún að gjöf allar námsbækur 2. og 3. árs í lögfræði sem gefnar eru út af Codex.

Einar Farestveit, lögmaður og gjaldkeri hollvinafélags Lagadeildar Háskóla Íslands, veitti Guðrúnu Sólveigu Sigríðardóttur viðurkenningu frá hollvinafélaginu fyrir hæstu einkunn á BA-prófi námsárið 2020-2021. Verðlaunin námu 150 þúsund kr. Þess skal sérstaklega getið að Guðrún Sólveig brautskráist með hæstu meðaleinkunn á BA-prófi í lögfræði frá Lagadeildinni frá upphafi.

Þórólfur Jónsson, framkvæmdastjóri og einn af eigendum LOGOS lögmannsþjónustu, veitti Kamillu Kjerúlf 250 þúsund kr. viðurkenningu frá lögmannsstofunni fyrir hæstu einkunn á meistaraprófi námsárið 2020-2021.

Lögmenn Lækjargötu ehf. veittu viðurkenningu að upphæð 250 þús. kr. til þess nemanda sem skilaði bestu lokaritgerð til meistaraprófs í lögfræði á undangengnu almanaksári. Fjögurra manna dómnefnd sem var skipuð þremur fulltrúum Lagadeildar og einum fulltrúa frá Lögmönnum Lækjargötu mat þær ritgerðir sem komu til greina.

Dómnefndin valdi meistararitgerð Ivönu Önnu Nikolic „Læknamistök í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu og íslenskur réttur“. Leiðbeinandi hennar var Róbert R. Spanó, forseti Mannréttindadómstóls Evrópu. Trausti Fannar Valsson, forseti Lagadeildar, veitti verðlaunin fyrir hönd Lögmanna Lækjargötu.

Að lokum var veitt viðurkenning Páls Hreinssonar, dómara við EFTA-dómstólinn í Lúxemborg, og Róberts S. Spanó, forseta Mannréttindadómstóls Evrópu, fyrir hæstu einkunn á BA-prófi og hana hlaut Guðrún Sólveig Sigríðardóttir. Verðlaunin eru kynningarferð til EFTA-dómstólsins í Lúxemborg og Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg. Trausti Fannar Valsson, forseti Lagadeildar, afhenti viðurkenninguna fyrir hönd Páls og Róberts.

Þórólfur Jónsson, Sigfríð Elín Þorvaldsdóttir, Ylfa Helgadóttir, Ivana Anna Nikolic, Kamilla Kjerúlf, Guðrún Sólveig Sigríðardóttir, Einar Farestveit og Trausti Fannar Valsson
Einar Farestveit, Guðrún Sólveig Sigríðardóttir og Trausti Fannar Valsson
Guðrún Sólveig Sigríðardóttir og Trausti Fannar Valsson
Þórólfur Jónsson, Kamilla Kjerúlf og Trausti Fannar Valsson
Ivana Anna Nikolic og Trausti Fannar Valsson
Sigfríð Elín Þorvaldsdóttir, Ylfa Helgadóttir og Trausti Fannar Valsson
Ylfa Helgadóttir, Ivana Anna Nikolic, Kamilla Kjerúlf og Guðrún Sólveig Sigríðardóttir