Verk fyrir segulband, fiðlu og selló á háskólatónleikum | Háskóli Íslands Skip to main content

Verk fyrir segulband, fiðlu og selló á háskólatónleikum

5. nóvember 2018
""

Á síðustu  háskólatónleikum haustmisseris 7. nóvember frumflytur Cauda Collective nýtt verk eftir Sigrúnu Harðardóttur fiðluleikara og Þórdísi Gerði Jónsdóttur sellóleikara en þær skipa Cauda Collective. Einnig verða flutt verk eftir Guðna Franzson og Ríkharð H. Friðriksson.

Tónleikarnir hefjast kl. 12.30 og þeir verða í Kapellunni í Aðalbyggingu Háskóla Íslands og eins og ávallt er enginn aðgangseyrir að tónleikunum og allir eru velkomnir.

Cauda Collective er tónlistahópur sem hefur það að markmiði að blanda sígildri kammertónlist saman við nýja tónlist og flétta saman við önnur listform. Í starfi hópsins er leitað skapandi leiða til að miðla tónlist og brjóta upp hefðbundna tónleikaformið svo að útkoman verði áhugaverð fyrir áhorfendur og flytjendur. Alltaf er þó markmiðið að þjóna tónlistinni. Hlutverki tónlistarflytjandans er ögrað enda semur hann líka tónlist, hann útsetur, spinnur og vinnur þvert á miðla. Á tónleikum Cauda Collective er alltaf frumflutt a.m.k. eitt nýtt tónverk. Og svo er einnig nú.

Þórdís Gerður Jónsdóttir sellóleikari og Sigrún Harðardóttir fiðluleikari skipa Cauda Collective sem hefur það að markmiði að blanda sígildri kammertónlist saman við nýja tónlist og flétta saman við önnur listform.

Um flytjendurna

Sigrún Harðardóttir hóf fiðlunám þriggja ára gömul við Tónskóla Sigursveins. Hún lauk B.Mus-prófi í fiðluleik frá LHÍ árið 2011, stundaði framhaldsnám í Berlín og Colorado og útskrifaðist með meistaragráðu í fiðluleik frá Lamont School of Music, University of Denver vorið 2014 með fyrstu einkunn. Aðalkennari hennar var Linda Wang.

Sigrún hefur tekið þátt í ýmsum námskeiðum víða um heim, m.a. hjá Krzysztof Penderecki, Midori, Barnabas Kelemen, Philippe Graffin, Kati Sebastyen, Ervin Schiffer, Sigurbirni Bernharðssyni, Merit Palas, Rachel Barton Pine og San Francisco-kvartettinum. Hún hefur líka verið staðartónlistarmaður í listamannabústöðum, Jiwar í Barcelona og Centre Pompadour í Frakklandi. Hún hefur hlotið fjölda styrkja og viðurkenninga, m.a. fullan skólastyrk til námsinas í Bandaríkjunum, listamannalaun, styrk úr borgarsjóði, tónlistarsjóði og hljóðritasjóði.

Sigrún hefur leikið með tónlistarhópum eins og Caput, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og strengjasveitinni Skark. Hún er eftirsóttur fiðlueikari í hljóðveri, hefur leikið inn á hljómplötur með Björk og Ólafi Arnalds, einnig í fjölda sjónvarpsþátta og kvikmynda og nýjasta hringitón Samsung. Sigrún hefur útsett margt fyrir strengi; má þar helst nefna tónleikhúsið KVÖLDVAKA með nýjum útsetningum á íslenskum þjóðlögum fyrir strengjakvartett og sögumann. Verkið var tilnefnt til nýsköpunarverðlauna forseta Íslands 2015 og hefur verið flutt víða, jafnt hér á landi sem erlendis. Hún hefur samið tónlist fyrir ýmsar leiksýningar sem sýndar hafa verið á Íslandi, Grænlandi, Englandi og Skotlandi.

Þórdís Gerður Jónsdóttir hóf nám í sellóleik átta ára við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. Eftir framhaldspróf vorið 2011 hóf hún nám við djassdeild Tónlistarskóla FÍH þar sem aðalviðfangsefni hennar voru spuni og það að finna sellóinu hlutverk sem leiðandi hljóðfæris í djasstónlist. Þórdís lauk burtfararprófi vorið 2015 með tónleikum þar sem eingöngu voru fluttar hennar eigin tónsmíðar, en í undirbúningi tónleikanna var meginmarkmið Þórdísar að fá djasshljómsveit til að æfa og spila eins og að um sígilda kammertónlist væri að ræða.

Þórdís hóf nám við LHÍ haustið 2014, lauk B.Mus.-prófi í sellóleik í desember 2017 og stefnir á áframhaldandi nám í klassískum sellóleik. Undanfarin ár hefur Þórdís spilað með fjölbreyttum tónlistarhópum, t.d. með djasskvintett Sigurðar Flosasonar og Hans Olding, Caput, Umbra Ensamble og Elektra Ensamble. Hún spilar einnig í djasskvartett þar sem markmiðið því að máta sellóið sem djasssöngvara, en sú hugmynd kviknaði út frá kenningunni um að sellóið sé það hljóðfæri sem líki hvað best eftir mannsröddinni. Þórdís lauk B.Sc.-prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands vorið 2014 og starfar aðra hverja helgi sem hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins.

Háskólatónleikar hefjast að nýju þann 6. febrúar 2019. Þá flytur Stirni Ensemble verk fyrir flautu og gítar.

kasetta

Netspjall