Skip to main content
21. júní 2020

Veglegir styrkir til vísindamanna HÍ úr Jafnréttissjóði

Rannsóknarverkefni vísindmanna og nemenda við Háskóla Íslands sem snerta m.a. árangur af innleiðingu jafnlaunastaðalsins hér á landi, reynslu erlendra kvenna af atvinnutengdu ofbeldi, vinnustaði og fæðingarorlof og samtvinnun jafnréttis og loftlagshamfara eru meðal þeirra sem hlutu styrki úr Jafnréttissjóði Íslands í ár. Styrkirnir voru veittir við hátíðlega athöfn í Hörpu á 19. júní, á sjálfan kvenréttindadaginn.

Jafnréttissjóði er ætlað að styrkja verkefni og rannsóknir sem miða að því að efla jafnrétti kynjanna í íslensku samfélagi og á alþjóðavísu en sjóðurinn var stofnaður í tilefni af 100 ára kosningaréttarafmæli íslenskra kvenna árið 2015.

Í ár bárust samtal 88 umsóknir í sjóðinn og fengu 19 verkefni styrk samtals að upphæð 92 milljónir króna. Hæstu stykirnir námu samstals níu milljónum króna og komu tveir slíkir í hlut Lindu Rósar Eðvarðsdóttur, doktorsnema við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, og samstarfsfólks hennar og Eddu Bjarkar Þórðardóttur, nýdoktors við Miðastöð í lýðheilsuvísindum, og samstarfsfélaga. Verkefni Lindu nefnist „Immigrant Women's Experiences of Employment-Based Violence in Iceland“ og Edda Björk vinnur að verkefninu „Sexual Harassment and Violence in the Work Environment“. 

Þá hlaut Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor í félagsfræði, og samstarfskonur hennar sex milljóna króna styrk til verkefnisins „Eru störf kvenna minna virði en karla? - Jafnlaunavottun og launamunur kynja“ og enn fremur hlaut Ásdís Aðalbjörg Arnalds, doktorsnemi við Félagsráðgjafardeild, og samstarfsfólk rúmar fimm milljónir króna til verkefnisins „Vinnustaðir og fæðingarorlof“.

Yfirlit yfir þau verkefni sem hlutu styrk úr Jafnréttissjóði Íslands að þessu sinni má finna á vef Rannís.
 

""