Skip to main content
17. ágúst 2023

Varði doktorsritgerð um hugmyndir Íslendinga um erlendan hreim

Varði doktorsritgerð um hugmyndir Íslendinga um erlendan hreim - á vefsíðu Háskóla Íslands

Stefanie Bade hefur varið doktorsritgerð í íslenskri málfræði, Accents and folk linguistics: A grounded-theoretical analysis of Icelandersʼ reactions to foreignersʼ use of Icelandic, við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. 

Andmælendur við vörnina voru Jacob Thøgersen, dósent við Kaupmannahafnarháskóla, og Unn Røyneland, prófessor við háskólann í Ósló. Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn Kristjáns Árnasonar, prófessors emeritus í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, en auk hans sátu í doktorsnefnd þau Sebastian Kürschner, prófessor við kaþólska háskólann Eichstätt-Ingolstadt í Þýskalandi, Tore Kristiansen, prófessor emeritus við Kaupmannahafnarháskóla og Unnur Dís Skaptadóttir, prófessor við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands.

Jón Karl Helgason, starfandi forseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnaði athöfninni sem fór fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands þriðjudaginn 15. ágúst. 

Um rannsóknina

Í ljósi þess að sífellt fleiri íbúar hér á landi tala íslensku með erlendum hreim hefur þessi ritgerð það að markmiði að kanna hugmyndir innfæddra Íslendinga um erlendan hreim og skoða þá þætti sem liggja á bak við þær hugmyndir. Þessi rannsókn er framkvæmd með eigindlegum aðferðum og nýtir sér hugtök og aðferðir sem beitt hefur verið í rannsóknum á alþýðumálfræði. Skipulögð voru fimm rýnihópaviðtöl og auk almennrar umræðu um breytileika í íslensku voru sex upptökur spilaðar fyrir þátttakendurna, fimm af einstaklingum með annað mál en íslensku að móðurmáli og ein af íslenskum móðurmálshafa, og þátttakendurnir beðnir um að meta þær. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að skynjun tiltekinna þátta á borð við skynjaðan skiljanleika, viðleitni talandans og hugmyndir um uppruna talandans hafi áhrif á mat á erlendum hreim.

Um doktorinn

Stefanie Bade lauk BA-prófi í norrænum fræðum við Humboldt háskóla í Berlín í Þýskalandi og meistaraprófi í þýðingafræði við Háskóla Íslands. Hún starfar sem aðjunkt í Íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands.

Unnur Dís Skaptadóttir, Ólöf Garðarsdóttir, Unn Røyneland, Stefanie Bade, Jacob Thøgersen, Jón Karl Helgason og Kristján Árnason.