Skip to main content
5. nóvember 2021

Útskriftarhátíð klínískra lyfjafræðinga

Útskriftarhátíð klínískra lyfjafræðinga - á vefsíðu Háskóla Íslands

ÚTSKRIFTARHÁTÍÐ KLÍNÍSKRA LYFJAFRÆÐINGA

Útskriftarhátíð klínískra lyfjafræðinga úr sérnámi í klínískri lyfjafræði á Íslandi var haldin í Hringsal Landspítala hinn 27. október. Alls eru nú sex lyfjafræðingar í náminu, en að þessu sinni voru útskrifuð þau Halla Laufey Hauksdóttir og Heimir Jón Heimisson, en bæði starfa hjá lyfjaþjónustu Landspítala. Stutt ávörp fluttu Freyja Jónsdóttir kennslustjóri, Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir forstjóri Landspítala, Arnþrúður Jónsdóttir deildarstjóri lyfjaþjónustu, Guðrún Dóra kennslustjóri í sérnámi í geðlæknisfræði, Elín Ingibjörg Jacobsen leiðbeinandi í sérnáminu og Elín Soffía Ólafsdóttir deildarforseti lyfjafræðideildar Háskóla Íslands. Meðfylgjandi eru svipmyndir frá viðburðinum.

Markmið meistaranáms í klínískri lyfjafræði er að þjálfa og þróa hæfni nemenda í grundvallarþáttum klínískrar lyfjafræði. Náminu er ætlað að stuðla að þeirri hæfni sem þarf til að tryggja örugga og árangursríka notkun lyfja í heilbrigðisþjónustu, sem er lykilhlutverk klínískra lyfjafræðinga. MS-nám í klínískri lyfjafræði er 90 eininga starfstengt nám á Landspítala. Námið er kennt í 50% hlutfalli í þrjú ár, 30 einingar á hverju námsári. Nám í klínískri lyfjafræði veitir aðgang að doktorsnámi í lyfjafræði og skyldum greinum á Íslandi, að því tilskyldu að nemandi útskrifist með fyrstu einkunn.
Sjá nánari upplýsingar um samsetningu náms í klínískri lyfjafræði til MS-prófs í kennsluskrá Háskóla Íslands.

Heimild: LSH. Ljósmyndir: Sigurjón Ragnar hjá LSH.

Útskriftarhátíð klínískra lyfjafræðinga haustið 2021 - Ljósmynd Sigurjon Ragnar - LSH