Skip to main content
22. maí 2015

Útskrift nemenda Jafnréttisskóla Háskóla Sþ

""

Útskrift frá Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna (HSþ) á Íslandi fór fram í vikunni þegar 10 nemar luku diplómanámi á meistarastigi í alþjóðlegum jafnréttisfræðum eftir misserisdvöl á Íslandi. Í útskriftarhópnum voru fimm konur og fimm karlar frá Malaví, Mósambík, Úganda og Palestínu.

Með þessum hópi hafa samtals 53 nemendur lokið námi frá Jafnréttisskólanum en hann tók til starfa árið 2009. Markmið hans er að veita sérfræðingum frá þróunarlöndum, átakasvæðum og fyrrverandi átakasvæðum þjálfun á sínu sérsviði og gera þeim betur kleift að vinna að jafnri stöðu karla og kvenna í heimalöndum sínum.

Við athöfnina fluttu ávörp Ástráður Eysteinsson, sviðsforseti Hugvísindasviðs, Gréta Gunnarsdóttir sendiherra og Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands. Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður Jafnréttisskólans, sagði frá starfssemi og áherslum skólans síðastliðið ár og Willi Nkumbi frá Úganda flutti ræðu fyrir hönd útskriftarnema.

Frú Vigdís Finnbogadóttir afhenti verðlaun Jafnréttisskólans fyrir framúrskarandi lokaverkefni sem kennd eru við hana. Þau komu í hlut Tony Bero sem skrifaði um kynbundið ofbeldi, forvarnir og viðbragðsáætlanir gegn því innan sjö flottamannabúða á Vesturbakkanum sem tilheyrir Palestínu. Leiðbeinandi hans var Þór Clausen, sérfræðingur í stefnumótun og mannauði. Við afhendingu verðlaunanna sagði Vigdís að þegar hún liti til baka til þess tíma þegar hún var kjörin forseti Íslands, fyrir 35 árum, hefði kynbundið ofbeldi verið umlukið rammgerðum þagnarmúr og þótt enn væri margt óunnið í jafnréttisbaráttunni væri mikið fagnaðarefni að hann hefði verið rofinn. Sú þrúgandi þögn sem ríkt hefði um þetta samfélagsmein hefði endurspeglað tabú og valdaójafnvægi sem tekið hefði áratugi að draga fram í dagsljósið.  

Jafnréttisskólinn heyrir undir Hugvísindasvið Háskóla Íslands en starfsemi hans og áherslur eru þverfaglegar og að honum koma sérfræðingar af ólíkum fræðasviðum, bæði innlendir og erlendir. Hann er rekinn með stuðningi utanríkisráðuneytisins og líkt og Jarðhita-, Sjávarútvegs- og Landgræðsluskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna er Jafnréttisskólinn hluti af framlagi Íslands til þróunarsamvinnu.

Upplýsingar um lokaverkefni útskriftarnema má finna á heimasíðu Jafnréttisskóla Háskóla Sþ.

Útskriftarnemarnir 2015 glaðbeittir ásamt hópi aðstendenda og velunnara Jafnréttisskólans.