Skip to main content
12. ágúst 2021

Ungt fólk þarf þjálfun til að greina upplýsingaflæði nútímans

Ungt fólk þarf þjálfun til að greina upplýsingaflæði nútímans - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Virk gagnrýnin og skapandi hugsun hefur alltaf átt erindi í menntun barna og unglinga en með síauknu upplýsingaflæði eykst mikilvægi hennar til muna. Orð Immanúels Kants Hafðu hugrekki til að nota þitt eigið hyggjuvit hafa sennilega sjaldan átt meira við en einmitt nú.“ Þetta segir Jóhann Björnsson, doktorsnemi í menntavísindum við Háskóla Íslands, sem hlaut nýverið styrk úr Sjóði Steingríms Arasonar til til að kanna þátt virkrar, gagnrýninnar og skapandi hugsunar í menntun barna og unglinga. Aðalleiðbeinandi hans er Atli Harðarson, prófessor við Deild faggreinakennslu, og meðleiðbeinendur eru Hanna Ragnarsdóttir, prófessor við Deild menntunar og margbreytileika og Björn Þorsteinsson, prófessor við Hugvísindasvið.

Þurfum að hafna hjarðmennskunni

Að sögn Jóhans er unnt að þjálfa gagnrýna hugsun á þann hátt að nemendur verða færari í að greina það sem borið er á borð fyrir þá á þessum upplýsingatímum og taka upplýsta afstöðu til efnisins. „Það eru allskyns gylliboð sem flæða yfir okkur til dæmis úr snjalltækjunum okkar, auglýsingar og tilboð, fréttir sem ekki eru alltaf áreiðanlegar eða réttar, þrýstingur um að gera eitthvað, hafa einhverjar skoðanir og svo framvegis. Með því að hvetja nemendur til að rökræða og spyrja gagnrýninna spurninga getur okkur tekist að þjálfa þá í að verða sjálfstæða hugsuði sem bera ábyrgð á eigin lífi, skoðunum og gjörðum. Og ef við viljum búa við nútímalegt menntakerfi er ekki nóg að tæknivæða skólana og stilla nemendum hugsunarlausum upp fyrir framan skjái heldur þurfum við ekki síður að leita aftur til baka til hugsuða á borð við Sókratesar og Kants þar sem hjarðmennskunni er hafnað og virk, gagnrýnin og skapandi hugsun er sett í forgrunn. Þetta er eitthvað sem ætti að einkenna stemninguna í öllu skólastarfi.“

Flest könnumst við það að vera í eilífu kapphlaupi við tímann. Þá reiðir ekki síður á að vita hverjum maður getur treyst í upplýsingamiðluninni þegar vitað er að fáir hafa tíma til að rýna í efnið til hlítar. Jóhann segir það að það sé eflaust misjafnt hvernig fólki gengur að greina upplýsingar. „Margt ungt fólk er gagnrýnið í hugsun á meðan aðrir eru það ekki. En eitt af því sem þarf að leggja áherslur á í þessu sambandi er ekki bara að efla færnina í að greina upplýsingaflæðið heldur ekki síður að hugsa út í það hverjum maður getur treyst í tilvikum þar sem maður hefur ekki tök á því að rýna ítarlega í þær upplýsingar sem maður þarf að taka afstöðu til. Spyrja þarf spurninga á borð við: Hverjum getur maður treyst ef maður þarf að bregðast við en hefur ekki tíma eða færi á að skoða málin til hlítar? Hvaða sérfræðingum getur maður treyst? Hvaða rannsóknir eru góðar? Hvaða fjölmiðlar eru traustsins verðir? Með því að vera vakandi fyrir þess konar spurningum myndi ég halda að væri mjög til bóta.“

Þurfum að spá og spekúlera

En hvernig kennum við ungu fólki skapandi og gagnrýna hugsun? „Ég hef síður viljað nota orðið kenna í þessu samhengi og frekar að þjálfa samanber það að maður þjálfar nemendur í að verða færari í að beita gagnrýninni og skapandi hugsun. Þjálfunin vísar til þess að hún þarf stöðugt að eiga sér stað, við gætum kennt nemendum eitthvað en án þess að þjálfun fylgi í kjölfarið verður sú kennsla harla gagnlítil. Þetta er bara rétt eins og með íþróttir, ég get kennt nemanda að synda en ef engin þjálfun fylgir í kjölfarið er hætt við því að hann verði illa syndur jafnvel þó hann teldist kunni að synda. Þess vegna myndi ég vilja að það andrúmsloft sem á sér stað í skólastarfi einkennist af nemendum og kennurum sem eru í spurn um hvaðeina sem á sér stað hverju sinni, og leyfi sér það að velta hlutunum fyrir sér, spá og spekúlera. John Dewey talaði um að kennslustundin ætti að hrista upp í hugum nemenda og það er einmitt það sem er svo mikilvægt að fá nemendur til að hugsa og spyrja.“

Skortur á sjálfstæðri hugsun ein af orsökum hrunsins

Margvíslegur þjóðhagslegur ávinningur er fólginn í rannsókn af þessu tagi. Dæmi um ávinning sem getur falist í eflingu gagnrýninnar og skapandi hugsunar fyrir samfélagið, er til að mynda sá að þegnarnir láti ekki spila með sig né blekkja sig. „Í 8. bindi rannsóknarskýrslu Alþingis sem gerð var í kjölfar bankahrunsins 2008 kom einmitt fram að ein af orsökum þess hvernig fór var skortur á upplýstri, gagnrýninni og sjálfstæðri hugsun. Fólk fylgdi í blindni einhverju sem einhverjir sögðu vegna þess að það hljómaði svo vel. Og við vitum hvernig fór. Með því að skoða markvisst hvernig unnið er að eflingu gagnrýninnar hugsunar og hvernig megi bæta um betur er lagður þekkingargrunnur sem skipuleggjendur skólastarfs, svo sem kennarar, skólstjórnendur og yfirvöld menntamála geta sótt í, vonandi til hagsbóta fyrir samfélag okkar,“ segir Jóhann að endingu.

Jóhann Björnsson, doktorsnemi við Háskóla Íslands, ásamt Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands við styrkúthlutun úr Steingrímssjóði í júní síðastliðnum. MYND/ Kristinn Ingvarsson