Um 200 rannsóknir kynntar á Þjóðarspeglinum | Háskóli Íslands Skip to main content

Um 200 rannsóknir kynntar á Þjóðarspeglinum

1. nóvember 2017

Popúlismi og pólitík eftir efnahagskreppuna, dómstólar og kynferði, ofbeldi, öryggi og afbrotaþróun og nýsköpun og viðskiptaþróun er meðal þess sem verður til umfjöllunar á Þjóðarspeglinum: Ráðstefnu í félagsvísindum sem fram fer í Háskóla Íslands 3. nóvember kl. 9-17. Jafnframt verður boðið upp á lykilmálstofu um framtíð íslenska heilbrigðiskerfisins.

Þjóðarspegillinn er nú haldinn í 18. sinn en hann hefur fyrir löngu unnið sér fastan sess sem ein helsta ráðstefnan á sviði félagsvísinda á Íslandi ár hvert. Í ár verður boðið upp á um 200 erindi í yfir 50 málstofum þar sem fjallað verður um það sem er efst á baugi í rannsóknum í félagsvísindum á Íslandi. Í ráðstefnuvikunni er jafnframt veggspjaldasýning á Háskólatorgi þar sem fjölmargir fræðimenn, meistara- og doktorsnemar kynna rannsóknir sínar.

Rannsóknirnar á Þjóðarspeglinum snerta félagsvísindi í sinni breiðustu mynd og meðal umfjöllunarefna eru lífskjör í kjölfar fjármálakreppunnar, ofbeldi, öryggi og afbrotaþróun, dómstólar og kynferði, ferðamálafræði frá ýmsum hliðum, staða fjölmiðla í samtímanum, málefni fanga, staða flóttamanna og innflytjenda, sálræn áföll og ofbeldi, popúlismi og pólitík eftir efnahagskreppuna, foreldrar og foreldrahlutverk, menningararfur og þjóðfræði, nýsköpun og viðskiptaþróun og velferð í skólum. Það er því alveg ljóst að allir ættu að geta fundið fyrirlestra við sitt hæfi.

Í lykilmálstofu og pallborðsumræðum sem fram fara í Hátíðasal Aðalbyggingar kl. 9-12 á föstudag verður framtíð íslenska heilbrigðiskerfisins í brennidepli. Þar er ætlunin að leiða saman fræðimenn, stefnumótendur og fulltrúa heilbrigðisstétta til að ræða stöðu heilbrigðiskerfisins í dag og hver æskileg framtíð þess er.

Dagskrá Þjóðarspegilsins má nálgast á vef ráðstefnunnar en auk þess verður hún aðgengileg í spánnýju viðburðaappi Háskóla Íslands sem verður að finna bæði fyrir Android- og Iphone-síma.

Ágripabók Þjóðarspegilsins er aðgengileg á Skemmunni.

Ókeypis er á allar málstofur á Þjóðarspeglinum og hann er öllum opinn.
 

gestir á Þjóðarspeglinum 2016

Netspjall