Traust til Háskóla Íslands eykst um sjö prósentustig | Háskóli Íslands Skip to main content
22. febrúar 2021

Traust til Háskóla Íslands eykst um sjö prósentustig

Traust til Háskóla Íslands eykst um sjö prósentustig - á vefsíðu Háskóla Íslands

Traust til Háskóla Íslands eykst um sjö prósentustig milli ára samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup sem kynntur var í upphafi vikunnar. Háskóli Íslands er í fjórða sæti yfir þær stofnanir samfélagsins sem njóta mests trausts og er hlutfallið sem ber traust til Háskóla Íslands nú 77 prósent. 

„Traust almennings skiptir okkur gríðarlega miklu máli í Háskóla Íslands. Í stefnu Háskólans leggjum við áherslu á að vera í fremstu röð á alþjóðavísu í þeim tilgangi að skila sem mestu til íslensks samfélags,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Í grunngildum Háskóla Íslands kemur fram að fagmennska og metnaður einkenni störf starfsfólks og stúdenta við skólann og séu forsenda þess trausts sem hann njóti í samfélaginu. Áhersla á þessa þætti í starfinu skilar sér greinilega í auknu trausti til skólans.

„Þetta mikla traust sem Háskólanum er sýnt og það stóra stökk sem blasir við á milli ára sýnir að starf skólans skiptir almenning á Íslandi mjög miklu máli,“ segir Jón Atli. 

Traust til skólans er mikilvægur mælikvarði um stöðu hans í íslensku samfélagi en Háskóli Íslands kappkostar að rannsóknir og prófgráður standist alþjóðleg viðmið og gæðakröfur sem aftur er forsenda þess trausts sem skólinn nýtur á alþjóðlegum vettvangi. 

Jón Atli segir að árangur skólans byggist á sameiginlegum gildum allra sem innan skólans starfa og nema, á skýrri stefnu skólans sem nú er verið að vinna að nýju til næstu fimm ára, á markvissu árangursmati og á stöðugum umbótum. „Stefna okkar er alltaf að gera góðan háskóla betri.“

Í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup nýtur Landhelgisgæslan mests trausts en á hæla henni koma Embætti forseta Íslands, heilbrigðiskerfið og svo Háskóli Íslands sem hefur notið mikils trausts á Íslandi undanfarinn áratug.

Aðalbygging Háskóla Íslands