Skip to main content
15. apríl 2020

Tíu ár frá gosinu í Eyjafjallajökli

""

„Fimmvörðuhálsgosinu lauk 12. apríl, þann sama dag og út kom rannsóknarskýrsla Alþingis um aðdraganda efnahagshrunsins 2008. Ekki var þó öll sagan sögð. Kl. 11 að kvöldi 13. apríl hófst áköf jarðskjálftahrina undir toppgíg Eyjafjallajökuls. Sú hrina stóð í um tvo og hálfan tíma. Þá dró úr henni og órói fór að gæta á mælunum. Gos var hafið undir tæplega 200 m þykkum ís í Eyjafjallajökli.“

Þannig endar fyrsti pistillinn sem Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands, ritar á Facebook-síðu Jarðvísindastofnunar í tilefni þess að tíu ár eru liðin frá Eyjafjallajökulsgosinu.

Í þessum fyrsta pistli af fjórum, sem Magnús Tumi hyggst birta á Facebook-síðunni um gosið, fer hann m.a. yfir áhrif þess á umheiminn. „Eldgosið hafði meiri áhrif á umheiminn en nokkurt þeirra gosa sem orðið hafa á Íslandi frá Skaftáreldum 1783. Flugsamgöngur í Evrópu og yfir Norður-Atlantshafi lögðust að mestu af í nokkra daga vegna hinnar fínu gosösku sem barst með norðvestlægum vindi í átt að Evrópu,“ segir Magnús Tumi sem ásamt kollegum sínum var í eldlínunni við rannsóknir og ráðgjöf til almannavarna meðan á gosinu stóð.

Hann bendir á að þó að gosið hafi ekki talist mjög öflugt var það langvinnt og vindáttir voru með þeim hætti að askan barst til suðurs og suðausturs. „Innan eldfjallafræði er eldgosið í Eyjafjallajökli einn stærsti viðburður síðustu áratuga,“ segir Magnús Tumi og vísar þar til áhrifanna á flugsamgöngur. 

„Eldgosið hafði meiri áhrif á umheiminn en nokkurt þeirra gosa sem orðið hafa á Íslandi frá Skaftáreldum 1783. Flugsamgöngur í Evrópu og yfir Norður-Atlantshafi lögðust að mestu af í nokkra daga vegna hinnar fínu gosösku sem barst með norðvestlægum vindi í átt að Evrópu,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands, m.a. í pistlinum.

Eyjafjallagosið hafði mikil áhrif á þróun eldfjallarannsókna

Áhrifa gossins gætti ekki bara í háloftunum og á jörðu niðri heldur einnig í vísindunum. „Lausleg skoðun á vefnum Web of Science sýnir að síðastliðin 10 ár hafa birst 208 greinar í alþjóðlegum ritrýndum tímaritum þar sem nafn Eyjafjallajökuls kemur fram í titlinum. Er það álíka mikið og samanlagður fjöldi greina með nafni Kötlu, Heklu, Grímsvötn, Bárðarbungu, Öskju og Kröflu á sama tímabili. Fjöldi tilvitnanna í greinarnar um Eyjafjallajökul er jafnframt miklu meiri en samanlagðar tilvitnanir í allar greinar sem út hafa komið um hinar eldstöðvarnar á sama tímabili. Þó svo að fjöldi tímaritsgreina og tilvitnana segi ekki alla söguna ber flestum saman um að gosið í Eyjafjallajökli 2010 hafi haft meiri áhrif á þróun eldfjallarannsókna en flest önnur eldgos sem orðið hafa síðustu áratugi.“

Gosið gerði boð á undan sér

Magnús Tumi bendir jafnframt á að gosið hafi gert boð á undan sér því bæði GPS-mælar og bylgjuvíxlmælingar hafi í upphafi árs 2010 sýnt þenslu á svæðinu auk þess sem jarðskjálftavirkni óx. „Frá því í byrjun mars vorum við öll á tánum. Þenslan var hröð og þúsundir jarðskjálfta urðu. Kvika leitaði til austurs í átt að Fimmvörðuhálsi. Síðan var það að kvöldi 20. mars að fólk í Fljótshlíð sá eld á Fimmvörðuhálsi. Aldrei þessu vant varð gosbyrjunar ekki vart á jarðskjálftamælum. Þegar leið á nóttina og vísindamenn náðu að skoða gosið úr lofti varð ljóst að viðvörun barst ekki vegna þess hve lítið gosið var,“ segir Magnús Tumi um undanfarann, gosið á Fimmvörðuhálsi. „Gígarnir voru á um 500 m langri sprungu á norðanverðum Fimmvörðuhálsi milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls. Gosið orsakaði því ekki jökulhlaup og gjóskufall var nánast ekkert. En á því leikur ekki vafi að það er mesta túristagos sem sögur fara af hér á landi.“

Pistil Magnúsar Tuma í heild sinni má finna á Facebook-síðu Jarðvísindastofnunar: 

Þar munu jafnframt fleiri pistlar hans birtast á næstu dögum.

Frá Eyjafjallajökulsgosi