Skip to main content
24. maí 2024

Þýska í boði sem fjarnám

Þýska í boði sem fjarnám - á vefsíðu Háskóla Íslands

BA-nám í þýsku við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands verður í boði sem fjarnám frá og með haustinu 2024.  Eins árs diplómanám í þýsku hefur verið í boði sem fjarnám frá liðnu hausti og segir Oddný G. Sverrisdóttir, prófessor í þýsku og greinarformaður þýskunáms við HÍ, að  reynslan af því og aukinn áhugi á fjarnámi hafi orðið til þess að ákveðið hafi verið að taka skrefið til fulls og bjóða upp á BA-nám í fjarnámi.

„Þetta er kærkomin viðbót við þýskunámið við Háskóla Íslands og gefur þeim sem vilja búa sig undir störf sem reyna á almenna og starfstengda þýskukunnáttu, til dæmis í viðskiptum, ferðaþjónustu og alþjóðasamskiptum, sem og nám og störf í þýskumælandi löndum  tækifæri til að stunda BA-nám í þýsku,“ segir Oddný og bætir við að með þessu sé líka reynt að koma til móts við þá nemendur sem sinna vinnu með námi og þá sem eiga ekki heimangengt.

Sylvía Mekkín Antonsdóttir sem er búsett erlendis hefur lagt stund á þýsku í fjarnámi við HÍ og hún segir reynsluna af því vera góða: „Það hefur gengið vel að stunda námið í fjarnámi og námið hefur nýst mér vel þar sem þýskan mín er mun betri nú að loknu námi.“

Hægt er að sækja um grunnnám við Háskóla Íslands til 5. júní.

Oddný G. Sverrisdóttir, prófessor í þýsku og greinarformaður þýskunáms við HÍ.