Skip to main content
8. febrúar 2019

Þrjú verkefni hljóta styrki úr Rannsóknarsjóði Rannís 2019

""

Þann 10. janúar síðastliðinni birti Rannís lista yfir þá aðila eða verkefni sem hlutu úthlutun úr Rannsóknarsjóði Rannís fyrir árið 2019. Alls hlutu þrjú verkefni styrki hjá Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild að þessu sinni, einn doktorsnemastyrkur, einn rannsóknarstöðustyrkur og einn verkefnisstyrkur.

Birna Þórisdóttir næringarfræðingur og nýdoktor fékk rannsóknarstöðustyrk til að vinna að rannsókn sem ber heitið Langtíma rannsókn á tengslum milli næringar, líkamssamsetningar og annarra þátta sem hafa áhrif á vöxt og þroska ungbarna. Í rannsókninni mun hún skoða áhrif þess að gefa barni eingöngu brjóstamjólk í 5-6 mánuði borið saman við að byrja með ábót við 3-4 mánaða aldur barnsins. Rannsóknin er samvinnuverkefni Geirs Gunnlaugssonar prófessors við Félags-, mannfræði- og þjóðfræðideild, þar sem nýdoktorinn hefur aðsetur, Ingu Þórsdóttur prófessors á Heilbrigðisvísindasviði og samstarfsaðila við Massachusetts General Hospital og Harvard háskólann í Boston og UCL GOS Institute of Child Health í London.

Sigrún Ólafsdóttir og Jón Gunnar Bernburg, prófessorar í félagsfræði, hlutu 3 ára verkefnisstyrk fyrir verkefnið: Ójöfnuður á Íslandi: Samanburður yfir tíma og á milli svæða. Verkefnið byggir á áratuga samstarfi þeirra Sigrúnar og Jón Gunnars, en árið 2009 höfðu þau forystu um að Ísland gerðist þátttakandi í Alþjóðlegu viðhorfakönnuninni (International Social Survey Programme). Viðfangsefnið það árið var ójöfnuður og gerir styrkurinn þeim kleift að endurtaka þá könnun núna 10 árum seinna.

Hamadou Boiro hlaut doktorsnemastyrk fyrir rannsókn sína 'Mansal er þungt orð': Bissá-gíneaskir Kóranskólanemendur  í Senegal undir leiðsögn dr. Jónínu Einarsdóttur, prófessors við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild. Alþjóðastofnanir og frjáls félagasamtök skilgreina múslímska drengi frá Gíneu-Bissá sem fara í Kóranskóla í Senegal sem fórnarlömb mansals. Í Senegal betla drengirnir fyrir hönd kennara sinna en þar er sterk hefð fyrir betli Kóranskóladrengja. Markmið doktorsverkefnis Hamadou Boiro er að rannsaka viðbrögð í Gínea-Bissá við ásökunum um mansal og aðgerðir alþjóðastofnana og frjálsra félagasamtaka til að koma drengjunum til síns heima og að framfylgja banni við betli í Senegal.

Gimli og Oddi