Skip to main content
23. september 2019

Þjóðlög með austrænum áhrifum á Háskólatónleikum

Háskólatónleikar hefjast á ný miðvikudaginn 25. september kl. 12.30 eftir hvíld sumarins. Á fyrstu tónleikum vetrarins, sem verða á Litla torgi Háskólatorgs, flytur þjóðlagasextett Ásgeirs Ásgeirssonar íslensk þjóðlög í útsetningum með austrænum áhrifum. Sextettinn skipa Ásgeir Ásgeirsson, sem leikur ýmis strengjahljóðfæri, Haukur Gröndal, sem leikur á klarínett, Matti Kallio á harmóníku, Þorgrímur Jónsson á kontrabassa, Erik Qvick á slagverk og Sigríður Thorlacius sem sér um sönginn.

Á tónleikunum hljóma íslensk þjóðlög, sum vel þekkt, önnur síður, í útsetningu Ásgeirs Ásgeirssonar. Leikin verða lög af einleiksplötum Ásgeirs, Two sides of Europe og Travelling through cultures, en á þeim eru nýir kaflar við íslensk þjóðlög. Þessa nýju kafla hefur Ásgeir samið og útsett með austrænan hljóðheim í huga og í samstarfi við þá Borislav Zgurovski frá Búlgaríu og Yurdal Tokcan frá Tyrklandi. Þessum austræna hljóðheimi lýsir Ásgeir svo að áhrifin séu komin „frá indverskri hindustani-tónlist, arabískri tónlist, tyrkneskri ottoman-tónlist, grískri rebetiko-tónlist og svo líka frá tónlist Balkanskagans.“

Plöturnar hafa fengið frábærar viðtökur. Á þeim leika enda tónlistarmenn á heimsmælikvarða. Auk þeirra íslensku eru listamennirnir frá Tyrklandi, Indlandi, Búlgaríu, Grikklandi, Austurríki og Íslandi. 

Á tónleikunum nú leika íslenskir og skandinavískir tónlistarmenn sem allir hafa lengi verið í framvarðasveit þeirrar tónlistar sem kölluð er íslensk heimstónlist.

Tónleikarnir eru eins og áður sagði á Litla torgi og hefjast þeir kl. 12.30.  Eins og alltaf er ókeypis aðgangur og öll velkomin.

Háskólatónleikar halda svo áfram í allan vetur en dagskrá þeirra má kynna sér á vef Háskólans.

Ásgeir Ásgeirsson