Skip to main content
12. ágúst 2022

Tekist á við túlkun texta í Ritröð Guðfræðistofnunar

Tekist á við túlkun texta í Ritröð Guðfræðistofnunar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Nýtt hefði Ritraðar Guðfræðistofnunar er komið út með fimm greinum sem fjalla allar um túlkun texta. Í formála Arnfríðar Guðmundsdóttur ritstjóra segir að í greinunum sé tekist á við ágengar spurningar um ráðagerðir Guðs, mátt illskunnar, vonina og hlutverk helgihaldsins.

Fyrsta greinin er eftir Atla Antonsson og ber titilinn „Ægifögur reiði: Um guðfræði og fagurfræði eldgosa.“ Í greininni ber Atli saman tvær tegundir texta um eldgos, annars vegar ritgerðir kristinna höfunda frá sautjándu og átjándu öld og hins vegar ljóð nokkurra nítjándu aldar skálda. Atli fjallar um viðhorf Jóns Steingrímssonar eldklerks og fleiri samtímamanna hans og ber þau saman við þá afstöðu sem kemur fram í ljóðum rómantísku skáldanna á nítjándu öld. Það er mat Atla að í umræddum ljóðum sé að finna bæði kristnar og heiðnar trúarhugmyndir og hvort sem er sé hægt að líta svo á að í ljóðunum megi greina afhelgun trúarlegra hugmynda eða tilraun til að endurhelga náttúruna. 

Í grein sinni „Girnilegt til fróðleiks: Syndafallssagan og Júdítarbók“ sýnir Bjarni Bjarnason fram á líkindi á milli Evu annars vegar, eins og hún er kynnt til sögunnar í sköpunarsögunum í fyrsta og öðrum kafla Fyrstu Mósebókar og í syndafallssögunni í þriðja kafla sömu bókar, og hins vegar Júdítar, aðalpersónu bókar sem við hana er kennd og tilheyrir apókrýfu bókum Gamla testamentisins. Bjarni veltir því fyrir sér hvort Júdítarbók sé hugsanlega skrifuð sem túlkun á frásögum Fyrstu Mósebókar um Evu. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að með hjálp þeirra líkinda sem er að finna á milli Evu og Júdítar megi leiða fram í dagsljósið ýmislegt nýtt og forvitnilegt í sögunum um sköpun og syndafall á fyrstu blaðsíðum Biblíunnar.

Hjalti Hugason fjallar um hið þekkta verk rithöfundarins Gunnars Gunnarssonar, Aðventu, í grein sem hann kallar „Von um sumarland: Guðsríkið í Aðventu Gunnars Gunnarssonar“. Í grein sinni gerir Hjalti grein fyrir þeirri athygli sem sagan nýtur nú á tímum og telur að færa megi rök fyrir því að bókin gegni hlutverki nútímahúslestrarbókar og íhugunarrits. Þá rekur Hjalti viðtökusögu verksins, sem birtist annars vegar í umfjöllun í tímaritum og dagblöðum og hins vegar í fræðilegum greinum. Til viðbótar þeirri túlkun sem er að finna í fyrri umfjöllunum setur Hjalti fram nýja túlkun sem byggist á hugmyndum kristinnar guðfræði um Ríki Guðs og fellur innan þess kafla guðfræðinnar sem kallast „eskatólógía“. Hjalti leggur þennan eskatólógíska leshátt fram sem „hugmynd um enn eina leið til að skilja þá sögu sem Gunnar segir í Aðventu“ og telur það merki um „styrk og klassískt gildi sögunnar“ að eftir nærri hundrað ár frá upprunalegri útgáfu sé enn og aftur verið að setja fram nýjar hugmyndir um túlkun hennar.

Viðfangsefnið í grein Jóns Ásgeirs Sigurvinssonar er 63. Davíðssálmur og ber greinin yfirskriftina „„Sál mín heldur sér fast við þig, hægri hönd þín styður mig“: Um innrömmun sem stílbragð í Sálmi 63.2–9“. Hér er um að ræða texta sem er lexía síðasta sunnudags kirkjuársins samkvæmt nýrri textaröð íslensku þjóðkirkjunnar. Í grein sinni færir Jón Ásgeir rök fyrir því að, ólíkt textum fyrstu og annarrar textaraðar, fjalli Slm 63 ekki um hina hinstu tíma, þar sem hugtakið „líf“ í þessum sálmi merki ekki andstæðu þess að vera ekki á lífi, heldur „velgengni“ eða „heilsu“. Að mati Jóns Ásgeirs mynda v. 2–9 í umræddum sálmi sjálfstæða efnislega heild, óháð v. 10–12. Það er niðurstaða hans að greining og innihald sálmsins styðji þann skilning að líta á v. 2–9 sem heildstæðan texta með áherslu á trúartraust sem henti vel sem lexía í lok kirkjuársins. 

„Stefnumót við brennuvarg hjartans: Emmaus-gangan og guðsþjónusta þjóðkirkjunnar“ er fyrirsögn greinar Þorgeirs Arasonar. Í greininni er frásögnin í 24. kafla Lúkasarguðspjalls, um ferðalag tveggja lærisveina Jesú til Emmaus og fund þeirra við hinn upprisna Krist, borin saman við guðsþjónustu íslensku þjóðkirkjunnar eins og hana er að finna í Handbók íslensku kirkjunnar. Þorgeir færir í grein sinni rök fyrir því að finna megi samsvörun annars vegar á milli skiptingar guðsþjónustunnar í fjóra grunnþætti og hins vegar grunngerðar Emmaus-frásagnar Lúkasarguðspjalls og telur að frásögnin geti dýpkað skilning á guðsþjónustunni og einstökum þáttum hennar. Auk þess er það mat hans að frásögnin geti lagt grunn að nýsköpun í helgihaldinu og nefnir í lok greinarinnar dæmi um það í hverju slík nýsköpun á grundvelli „Emmaus-módelsins“ geti falist.

Smellið hér til að lesa Ritröð Guðfræðistofnunar.

Ritörð Guðfræðistofnunar