Streitustjórnun, svefnvenjur og próftækni á fræðsludagskrá NSHÍ | Háskóli Íslands Skip to main content
20. september 2019

Streitustjórnun, svefnvenjur og próftækni á fræðsludagskrá NSHÍ

Háskólatorg

Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands stendur fyrir metnaðarfullri fræðsludagskrá dagana 24.-26. september þar sem m.a. verða veitt hagnýt ráð um markmiðssetningu, streitustjórnun, svefn og svefnvenjur og próftækni. Dagskráin, sem fer fram í stofu HT-300 á Háskólatorgi, er opin öllum en erindin sem boðið er upp höfða sérstaklega til háskólanemenda. Aðgangur er ókeypis og ekki þarf að skrá sig á viðburðinn.

Að dagskránni koma bæði náms- og starfsráðgjafar og sálfræðingar hjá Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands en þeir munu miðla þekkingu sinni og reynslu til gesta.

Fræðsludagskráin er svohljóðandi:

Þriðjudagur 24. september

- 11:40 - Markmiðssetning, tímastjórnun og skipulag
Fjallað verður um helstu þætti tímastjórnunar og hvernig hægt er að skipuleggja tíma sinn. Auk þess verður farið yfir markmiðssetningu og hvernig hún getur haft áhrif á velgengni og árangur.
- 12:20 - Framkvæmum, frestum ekki!
Er slæmt að fresta? Eru allir frestarar inn við beinið? Ljósi verður varpað á fyrirbærið frestun, hvaða áhrif það hefur á námsmanninn og hjálplegar leiðir til að takast á við frestun.

Miðvikudagur 25. september

- 11:40 - Svefn og svefnvenjur
Hvað er svefnvandi og hvaða þættir eru truflandi? Farið verður yfir hjálplegar leiðir við að bæta svefn og svefnvenjur. Kynnt verður hvernig sálfræðileg meðferð (hugræn atferlismeðferð) vinnur með óhjálplega hegðun og hugsanir í tengslum við svefnvanda.
- 12:20 - Streitustjórnun
Farið verður yfir helstu einkenni streitu og streituvaldandi álagsþátta og hvernig við bregðumst við. Hjálplegar og fyrirbyggjandi leiðir verða skoðaðar til að styðja enn frekar við árangur og vellíðan í námi. Núvitund verður kynnt til sögunnar en rannsóknir hafa sýnt fram á að regluleg þjálfun í núvitund hafi jákvæð áhrif á almenna líðan, dregur s.s. úr streitu, kvíða og depurð.

Fimmtudagur 26. september

- 11:40 - Sérúrræði í námi og prófum
Fjallað verður um úrræði sem Háskóli Íslands getur veitt nemendum með námsörðugleika, fötlun eða veikindi í námi og prófum.
- 12:20 - Prófundirbúningur og próftækni
Farið verður yfir nokkur hagnýt atriði er varðar próftökuna sjálfa, meðal annars hvernig er best að skipuleggja tímann í prófinu og hvað ber að forðast við þessar aðstæður.
 

""