Skip to main content
9. nóvember 2023

Stefnir þitt fyrirtæki að markaðssókn á erlendan markað?

Stefnir þitt fyrirtæki að markaðssókn á erlendan markað? - á vefsíðu Háskóla Íslands

Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands býður íslenskum fyrirtækjum sem stefna að markaðssókn á erlenda markaði að sækja um þátttöku í metnaðarfullu verkefni meistaranema.

Á vormisseri munu teymi meistaranema, undir handleiðslu sérfræðinga, vinna fyrir íslensk fyrirtæki og aðstoða þau við áskoranir sem snúa að markaðssókn á erlenda markaði. Komið verður til móts við sérhvert fyrirtæki út frá þeirra þörfum. Þjónustan getur því falist í ýmsu, til dæmis greiningum á ólíkum mörkuðum, útfærslu á markaðsstefnu á tilteknum markaði, útfærslu á markaðssamskiptum eða öðru tengt erlendri markaðssókn.

Þremur íslenskum fyrirtækjum verður boðin þátttaka. Til að eiga möguleika á að vera valin úr hópi umsækjenda þurfa fyrirtækin að hafa verið með afurð á markaði, innlendum eða erlendum, í að minnsta kosti tvö ár og vera með að lágmarki þrjá starfsmenn.

Fyrirtækin sem fá boð um þátttöku geta vænst þjónustu sem byggir á faglegri markaðsþekkingu og ítarlegri greiningarvinnu. Teymin hefja vinnu fyrir fyrirtækin í byrjun febrúar 2024 og skila af sér ítarlegri ráðgjafarskýrslu um það bil þremur mánuðum síðar.

Umsókn um þátttöku skal send inn í gegnum umsóknarform sem er aðgengilegt með því að smella hér. Opið er fyrir umsóknir til 1. desember 2023. Öllum umsóknum verður svarað í síðasta lagi 11. desember.

Ef einhverjar spurningar vakna, hafið samband við Auði Hermannsdóttur í gegnum netfangið audurhermannsdottir@hi.is.

Háskólatorg