Skip to main content
11. nóvember 2017

Sjónum beint að heilsueflingu og frítíma fólks

Sjónum beint að heilsueflingu og frítíma fólks - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Það verður að vinna heildstætt með heilsueflingu og styðja markvisst við að einstaklingar nýti frítíma sinn á jákvæðan máta. Þar er mikilvægt að líta til þess fjölbreytta starfs sem boðið er upp á í æskulýðs- og tómstundastarfi,“ segir Kolbrún Þ. Pálsdóttir, dósent í tómstunda- og félagsmálafræði og formaður Rannsóknarstofu í tómstundafræðum við Háskóla Íslands. Rannsóknarstofan, í samstarfi við fjölmarga aðila, stendur fyrir ráðstefnunni "Íslenskar æskulýðsrannsóknir" þann 17. nóvember nk. í Hlégarði í Mosfellsbæ.

Viðfangsefni ráðstefnunnar að þessu sinni er heilsuefling og frítími. „Við vitum að í félags- og tómstundastarfi myndast oft sterk tengsl fagfólks og skjólstæðinga. Við vitum líka að óformlegt námsumhverfi, ekki síst starf sem fer fram úti og tengir okkur betur við náttúruna, getur haft mjög jákvæð áhrif á velferð ungmenna sem standa höllum fæti.“ Í þessu samhengi bendir Kolbrún á að huga þurfi að þeim þáttum sem styðji við fagmennsku, hlutverk starfsfólks og ekki síður hvernig kenningar og rannsóknir eru nýttar til að styðja við árangur æskulýðsstarfs.

Aðalfyrirlesarar ráðstefnunnar eru Linda Caldwell, prófessor emeritus við Penn State háskóla, og Jo Trelfa, dósent við Háskólann í Winchester. Linda Caldwell er frumkvöðull á sviði tómstundamenntunar og stýrði m.a. rannsóknarverkefni í Suður-Afríku sem sneri að því að bæta lífsgæði og heilsu ungs fólks. Í erindi sínu fjallar Linda um svokölluð rökmódel (e. Logic Model) sem nýtast til meta hvort og þá hvernig árangri tiltekin starfsemi skilar. Linda leggur áherslu á að fagfólk á sviði heilsueflingar, útivistar og æskulýðsstarfs nýti kenningar og rannsóknir á markvissan hátt til að efla árangur og gæði í slíku starfi.

Jo Trelfa hefur um árabil þróað ígrundandi starfshætti í æskulýðsstarfi þar sem aðferðum óformlegs náms er beitt til að valdefla og bæta lífsgæði einstaklinga og hópa. Rannsóknir hennar hafa m.a. beinst að þróun fagmennsku og fagvitundar og því hvernig formlegir og óformlegir þættir spila þar saman. Í erindi sínu fjallar hún um hlutverk fagfólks sem starfar með fólki og fyrir fólk í ólíkum aðstæðum. Jo færir rök fyrir mikilvægi þess að finna jafnvægi í slíkri vinnu þar sem fagaðilinn sjálfur er verkfærið og þarf því að tryggja eigið heilbrigði og velferð.  

Auk aðalfyrirlesara verða flutt fjölmörg erindi sem fjalla á einn eða annan hátt um tengsl heilsueflingar, útiveru og frítíma.  

Ráðstefnan er öllum opin og er þátttökugjald 4.500 krónur. Innifalið í ráðstefnugjaldi er morgun- og hádegisverður. 

Að ráðstefnunni standa Rannsóknarstofa í tómstundafræði, Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri, Æskulýðsráð ríkisins, Rannsóknarstofa í bernsku- og æskulýðsfræðum, Félag fagfólks í frítímaþjónustu, Mosfellsbær, Samfés, Umboðsmaður barna, Rannsókn og greining og fleiri. 

„Það verður að vinna heildstætt með heilsueflingu og styðja markvisst við að einstaklingar nýti frítíma sinn á jákvæðan máta. Þar er mikilvægt að líta til þess fjölbreytta starfs sem boðið er upp á í æskulýðs- og tómstundastarfi,“ segir Kolbrún Þ. Pálsdóttir, lektor í tómstunda- og félagsmálafræði og formaður Rannsóknarstofu í tómstundafræðum við Háskóla Íslands. Rannsóknarstofan, í samstarfi við fjölmarga aðila, stendur fyrir ráðstefnunni Íslenskar æskulýðsrannsóknir þann 17. nóvember nk. í Hlégarði í Mosf