Samtal við atvinnulíf um ávinning doktorsnáms fyrir samfélagið | Háskóli Íslands Skip to main content

Samtal við atvinnulíf um ávinning doktorsnáms fyrir samfélagið

22. febrúar 2018
""

Háskóli Íslands býður til morgunverðarfundar um tækifærin sem felast í doktorsnámi og rannsóknum fyrir atvinnulíf og samfélag fimmtudaginn 1. mars kl. 8.30-10.00 í Norðurljósasal Hörpu. 

„Okkur hjá Háskóla Íslands hefur lengi dreymt um að koma þessu málefni betur á framfæri við atvinnulífið. Við teljum að þarna séu gríðarleg tækifæri og verðmætasköpun fyrir fyrirtækin í landinu og samfélagið allt sem við Íslendingar verðum að nýta okkur betur,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Aðalfyrirlesari verður Peder Holk Nielsen, forstjóri Novozymes A/S í Danmörku, leiðandi fyrirtækis á heimsvísu á sviði líftæknilausna. Í erindi sínu, sem hann nefnir „Science for Sustainability“, hyggst Nielsen fjalla um hvernig vísindin eru eina sjálfbæra leiðin til þess að leysa stærstu viðfangsefni mannkyns. Slíkt krefjist öflugs vísindasamstarfs einkageirans og hins opinbera ásamt eftirlitsaðilum víða um heim.

„Það er mikill fengur fyrir okkur að fá Peter Holk Nielsen til landsins, en hann á í öflugu samstarfi við danska háskóla. Noyozymes er mjög öflugt fyrirtæki sem er skráð í Kauphöll Kaupmannahafnar og er markaðsverðmæti þess um 15 milljarðar bandaríkjadala,“ bætir Jón Atli við.

Á fundinum verður einnig fjallað um það hvaða þýðingu rannsóknir doktorsnema og leiðbeinenda þeirra hafa í nútímasamfélagi og hvernig hægt er að efla námið enn frekar í samstarfi háskóla, atvinnulífs og stjórnvalda. Fulltrúar allra þessara aðila taka til máls á fundinum en jafnframt verða sagðar sögur af vel heppnuðu samstarfi Háskólans og atvinnulífsins tengdu doktorsnámi. 

Nánari upplýsingar um dagskrá fundarins eru á vef skólans.
 

Peder Holk Nielsen, forstjóri Novozyme, hefur starfað hjá fyrirtækinu og móðurfélagi þess, Novo Nordisk, allt frá árinu 1984 og komið að ýmsum störfum innan þess. Hann hefur verið forstjóri Novozymes frá árinu 2013. Peder státar af doktorsgráðu í efnaverkfræði og B.Com.-gráðu í alþjóðaviðskiptum. Hann situr í stjórn Hempel-málningarvörufyrirtækisins og þá hefur hann verið dönskum stjórnvöldum til ráðgjafar á sviði verslunar, framleiðslu og stafrænnar tækni.

Nánar um Novozymes 
Novozymes er leiðandi fyrirtæki á heimsvísu þegar kemur að líftæknilausnum og framleiðir ensím og örverur fyrir öll helstu fyrirtæki heimsins á meira en 40 sviðum iðnaðar. Novozymes hefur um helmings markaðshlutdeild á sviði iðnaðarensíma í heiminum og framleiðsluvörur þess koma í stað efna og hvata framleiðsluferli um leið og þær spara orku og draga úr úrgangi. 

Ensím í endurbættum þvottaefnum gera það kleift að þvo við lægra hitastig, þau auka gæði brauðs, bjórs og víns og eru nýtt við framleiðslu lífræns eldsneytis. Novozymes framleiðir einnig ýmsar örverur sem notaðar eru í landbúnaði, við dýralækningar, í næringarskyni og við meðhöndlun skólps.

Novozymes leggur áherslu á sjálfbærni í framleiðslu sinni en þess má geta að í fyrra leiddi notkun framleiðsluvara  Novozymes um víða veröld til þess að viðskiptavinir þess gátu minnkað losun koltvíoxíðs um 76 milljónir tonna, að talið er. 

Novozymes, sem stofnað var árið 2000 út frá starfsemi innan hins vel þekkta lyfjafyrirtækis Novo Nordisk. Fyrirtækið er með höfuðstöðvar í Bagsværd rétt fyrir utan Kaupmannahöfn í Danmörku en framleiðsla þess fer fram víða um heim og það rekur tengd félög og söluskrifstofur í meira en 30 löndum. Hjá Novozymes starfa um 6.500 manns. Fjárfesting á heimsvísu í þróun ensíma er að 2/3 hlutum í höndum Novozymes en 13-14% af heildartekjum fyrirtækisins er varið í rannsóknir og þróun. 

Novozymes er skráð í Kauphöll Kaupmannahafnar og er markaðsverðmæti þess um 15 milljarðar bandaríkjadala. 

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, átti á dögunum fund með þremur af þeim sem taka til máls á morgunverðarfundinum, þeim Hrund Rudolfsdottur, forstjóra Veritas sem verður fundarstjóri, og Ásthildi Otharsdóttur, stjórnarformanni Marel, og Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar, sem munu ræða sýn atvinnulífsins á doktorsnám. MYND/Kristinn Ingvarsson

Netspjall