Skip to main content
7. júlí 2022

Samstarf við Sjóvá um slysavarnir

Samstarf við Sjóvá um slysavarnir - á vefsíðu Háskóla Íslands

Rannsóknastofa Sálfræðistofnunar Háskóla Íslands í atferlisgreiningu og Sjóvá hafa endurnýjað samstarfssamning um að fækka og koma í veg fyrir slys á börnum með því að setja upp viðvörunarmerkingar í innkaupakerrur verslana. 

Hættuleg slys á börnum

Árlega slasast fjöldi barna í slysum tengdum innkaupakerrum. Þessi slys og meiðsli sem af þeim hljótast geta verið allt frá því að klemma fingur eða útlimi yfir í fall úr kerru sem getur haft í för með sér alvarlega höfuð- og hálsáverka. Mikilvægt er því að koma í veg fyrir að foreldrar og aðrir uppalendur setji börn ofan í innkaupakerrur.

Forvarnaverkefni byggt á rannsóknarniðurstöðum

Árið 2010 hóf Zuilma Gabriela Sigurðardóttir, prófessor í atferlisgreiningu og atferlismeðferð við Sálfræðideild Háskóla Íslands og stofustjóri Rannsóknastofu í atferlisgreiningu, rannsókn til að kanna áhrif þess að koma sérstökum viðvörunarspjöldum fyrir í innkaupakerrum matvöruverslana á hegðun foreldra. Markmiðið var að vekja fólk til vitundar um þá hættu sem börnum stafar af því að vera laus í innkaupakerrum stórverslana.
 

Viðvörunarspjald á innkaupakerru í Bónus. Merktar hafa verið kerrur í nokkrum Bónus-verslunum og í Fjarðarkaupum.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að mun færri foreldrar settu börn sín í kerrurnar þegar spjaldið var í þeim en á samanburðartímabilum. Einfalt sjónrænt áreiti sem komið er fyrir á innkaupakerrum getur því dregið verulega úr því að börn séu sett ofan í innkaupakerrur. Þetta vakti athygli Sjóvár og gerður var samstarfssamningur í apríl 2014. Í kjölfarið voru frekari rannsóknir unnar og mismunandi þættir skoðaðir. Nú hefur samningurinn verið uppfærður og endurnýjaður.

Mikilvægt samstarf

Niðurstöðurnar hafa vakið athygli á alþjóðavísu og fela í sér mikilvæga þekkingu til að efla forvarnir í slysavörnum barna. Sjóvá styrkir verkefnið og á í samstarfi við Rannsóknastofu í atferlisgreiningu um að gera samninga við þær verslanir sem taka þátt í verkefninu. Samstarfsaðilar vinna síðan saman að því að kynna verkefnið og var verkefnið meðal annars kynnt á ráðstefnu Slysavarnafélagsins Landsbjargar síðastliðið haust, Slysavarnir 2021. Von aðstenda verkefnisinss er sú að það stuðli að árvekni foreldra og annarra umönnunaraðila þannig að koma megi í veg fyrir slys á börnum í matvöruverslunum. Augnablikskæruleysi getur haft í för með sér alvarlegar afleiðingar og því er til mikils að koma í veg fyrir að börn séu sett ofan í innkaupakerrur.

 Jóhann Þórsson, markaðsstjóri Sjóvá, og Zuilma Gabriela Sigurðardóttir, prófessor við Sálfræðideild Háskóla Íslands og stofustjóri Rannsóknastofu í atferlisgreiningu, við undirritun samstarfssamningsins.