Risaráðstefna EURAM í HÍ í vikunni | Háskóli Íslands Skip to main content

Risaráðstefna EURAM í HÍ í vikunni

20. júní 2018

Vel á annað þúsund erlendir gestir eru komnir eða á leið til landsins til þess að sækja ráðstefnu European Academy of Management (EURAM) sem fram fer í Háskóla Íslands dagana 19.-22. júní. Það er Viðskiptafræðideild skólans sem stendur að ráðstefnunni en hún er ein sú stærsta sem haldin hefur verið hér á landi.

EURAM er þekkingarsamfélag háskóla í 49 löndum sem stofnað var árið 2001 og miðar að því að efla rannsóknir og þekkingarsköpun í viðskiptafræði. Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands tryggði sér rétt til að halda ráðstefnu samtakanna árið 2016 og hefur undirbúningur hennar því staðið yfir í tæp tvö ár. Formaður undirbúningsnefndar EURAM 2018 er dr. Eyþór Ívar Jónsson, lektor við Viðskiptafræðideild og forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti. 

Ráðstefnan, sem ber yfirskriftina „Research in Action – Accelerating knowledge creation in management“, hófst á móttöku á Háskólatorgi síðdegis í gær. Þar var sérstök áhersla á jafnréttismál í tilefni kvenréttindadagsins. Formleg setning ráðstefnunnar fór svo fram í Háskólabíói í dag kl. 13.30 þar sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Sibel Yamak, forseti EURAM, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, ávörpuðu ráðstefnugesti. Í framhaldinu tók við umræðufundur þar sem fjallað var um árangursríkt samstarf háskóla og atvinnulífs með þátttöku vitra fræðimanna sem m.a. hafa reynslu að stjórnunarstörfum innan stórra alþjóðlegra fyrirtækja eins og Nokia og Segafredo. Ráðstefnunni lýkur á föstudag með umræðufundi um sjálfbærni þar sem aðalfyrirlesarinn er Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands.

Ráðstefnan fer fram víða á háskólasvæðinu og þar verða kynntar um 1.200 rannsóknir innan ólíkra sviða viðskiptafræðinnar, þar á meðal stjórnunar, stefnumótunar, nýsköpunar og alþjóðavæðingar og stjórnarhátta, auk þess sem boðið verður upp á vinnustofur fyrir bæði fræðimenn og fólk í viðskiptalífinu. Þess má geta um 2.000 umsóknir um kynningar á rannsóknum bárust undirbúningsnefnd ráðstefnunnar, eða 60% fleiri umsóknir en þegar ráðstefnan var haldin í fyrra við University of Strathclyde í Glasgow í Skotlandi. 

Við þann fjölda fræðimanna sem kynnir rannsóknir sínar bætast svo aðrir gestir ráðstefnunnar en samanlagt er áætlað að um sautján hundruð manns komi hingað til lands á ráðstefnuna sem verður um leið ein sú stærsta sem haldin hefur verið við Háskóla Íslands. 

Auk ráðstefnunnar fór fram sérstakur fundur fyrir doktorsnema í viðskiptafræði á vegum EURAM dagana 17.-19. júní. 

Upplýsingar og dagskrá EURAM-ráðstefnunnar má nálgast á heimasíðu hennar
 

Eyþór Ívar Jónsson
Katrín Jakobsdóttir
Frá setningu ráðstefnunnar
Jón Atli Benediktsson

Netspjall