Skip to main content
22. desember 2022

Rannsakar kynjaðan veruleika táninga á samfélagsmiðlum

Rannsakar kynjaðan veruleika táninga á samfélagsmiðlum - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Rannsóknin byggist í stuttu máli á veruleika táninga á samfélagsmiðlum og hvernig hann er kynjaður. Í aðeins lengra máli þá er rannsóknin hluti af stærra verkefni á vegum Rannsóknastofu um jafnrétti, menntun og kyngervi (RannKyn) þar sem aðrir rannsakendur skoða einnig hvernig börnum farnast í veruleika þar sem samfélagsmiðlar eru sífellt fyrirferðameiri hluti af lífinu.“

Þetta segir Þórður Kristinsson, doktorsnemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, um rannsókn sína „Kvíði, stress, reiði, undrun, sorg, hræðsla og hamingja: Kynjaði tilfinningaskalinn á samfélagsmiðlum“. Kveikjan að rannsókninni var aukin umræða um samfélagsmiðlanotkun og möguleg skaðleg áhrif hennar á ungmenni en samfélagsmiðlabyltingar á borð við #metoo kveiktu einnig áhuga Þórðar á að skoða kynjaðan veruleika unglinga á netinu.

Rof á milli kynslóða hvað varðar samfélagsmiðlanotkun

Þórður hefur unnið mikið með unglingum, bæði í starfi sínu og rannsóknum, en í þeim störfum kom hann auga á ákveðið rof á milli kynslóða hvað varðar samfélagsmiðlanotkun. „Samfélagsmiðlum hafa fylgt svo gríðarlega miklar breytingar á samfélaginu sem við sjáum ekki fyrir endann á og gefa okkur endalaus tækifæri til þess að skoða sambandið á milli veruleikans í holdheimum og þess stafræna. Að vissu leyti má segja að veruleiki samfélagsmiðlanotenda sé í sífellt auknum mæli mótaður af því sem fram fer á netinu sem hefur aftur áhrif á hvernig við skynjum og högum okkur í samfélaginu sem við búum í,“ segir Þórður. Samfélagsmiðlanotkun einstaklinga sé því mjög ólík eftir því hvaða samfélagshópum viðkomandi tilheyrir og hefur það áhrif á samskipti einstaklinga, bæði í net- og raunheimum.

Þórður segir  að  markmið rannsóknarinnar sé að fá innsýn inn í hvernig ungmennin sjálf upplifa líf sitt á og í kringum samfélagsmiðla. „Eins og ég minntist á áður þá er ákveðið rof á milli þess hvernig samfélagsmiðlar birtast táningum og fullorðnum. Þar sem hlutur samfélagsmiðla er að verða sfellt meiri í daglegu lífi fólks er hollt og gott fyrir þau sem vinna með börnum og ungmennum eða umgangast börn og ungmenni að átta sig á veruleika þeirra. Með meiri og betri skilning á hvaða hugmyndir unglingarnir okkar eru að fá í gegnum samfélagsmiðlana og hvaða áhrif það hefur á hvernig þau sjá tækifæri sín og framtíð í samfélaginu er hægt að bregðast við á uppbyggilegan hátt.“

„Það er ljóst að þátttaka í lýðræðissamfélagi fer ekki síður fram á samfélagsmiðlum en í holdheimum og að þar er ástandið á þann veg að hópar fólks veigra sér frá þátttöku vegna alls kyns ofbeldishegðunar sem er því miður alltof algeng á netinu. Hugmyndir um hvað sé góð, rétt og æskileg hegðun eftir kyni eru ekki síður heftandi á netinu en í holdheimum og að mörgu leyti eru hugmyndir þar afturhaldssamari en almennt í samfélaginu,“ segir Þórður. MYND/Adem Ay - unsplash.com

Hugmyndir um æskilega hegðun afturhaldsamari á netinu en í samfélaginu

Háskóli Íslands leggur áherslu að rannsóknir við skólann hafi víðtæk samfélagsleg áhrif og að þær séu nýttar til að leita lausna á þeim vanda sem heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna lýsir. 

Þórður segir að hægt sé að tengja rannsókn sína við heimsmarkmiðið á nokkra vegu. Snerti hún á markmiði 4 um menntun fyrir alla, markmiði 5 um jafnrétti kynjanna og svo markmiði 16 um frið og réttlæti. „Það er ljóst að þátttaka í lýðræðissamfélagi fer ekki síður fram á samfélagsmiðlum en í holdheimum og að þar er ástandið á þann veg að hópar fólks veigra sér frá þátttöku vegna alls kyns ofbeldishegðunar sem er því miður alltof algeng á netinu. Hugmyndir um hvað sé góð, rétt og æskileg hegðun eftir kyni eru ekki síður heftandi á netinu en í holdheimum og að mörgu leyti eru hugmyndir þar afturhaldssamari en almennt í samfélaginu,“ segir Þórður.

Leyfir gögnunum að tala

Sem stendur er verið að vinna greinar upp úr þeim gögnunum sem Þórður hefur aflað. Þórður varast að gera ákveðnar væntingar til niðurstaðna rannsóknarinnar og vill frekar leyfa gögnunum að tala. Hann bendir á að nú þegar séu til töluvert af góðum tölfræðigögnum um samfélagsmiðlanotkun ungmenna á Íslandi, svo hann hafi ákveðið að notast við svokallaðar eigindlegar aðferðir til þess að fá nánari innsýn í upplifun þátttakenda. Gögnunum var safnað frá ólíkum skólahverfum á landinu á yfir tveggja ára tímabili og notaðist Þórður við þrjár aðferðir til gagnaöflunar: vinahópaviðtöl, netnógrafíu, sem lýsa má sem rannsóknaðferð um og innan samfélagsmiðla, og sögulokaaðferð sem gefur rannsakendum færi á að greina orðræðu og það á hvaða hátt fólki er mögulegt að skrifa og hugsa um það rannsóknarfyrirbæri sem sjónum er beint að.

„Það er þó ljóst frá þeim gögnum sem ég hef safnað að lífið á samfélagsmiðlum er töluvert kynjað, að notendur eru með ákveðnar hugmyndir um hvað sé góð, rétt og æskileg hegðun á samfélagsmiðlum eftir kyni. Ein sterkasta birtingarmyndin eru þær tilfinningar sem má tjá og sýna á samfélagsmiðlum eftir kyni. Hugmyndirnar eru þó í sífelldri þróun og mótast ekki síður í samhengi við miðilinn sem er verið að nota hverju sinni,“ segir Þórður. 

Höfundur greinar: Steinunn Björk Bragadóttir, MA-nemi í alþjóðasamskiptum.

Þórður Kristinson