Skip to main content
28. maí 2020

Rannsakar áhrif plasts á heimshöfin í hnattsiglingu

Helena Westhöfer Óladóttir, umhverfisfræðingur og aðjunkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, hefur verið valin úr hópi 10.000 kvenna til þess að taka þátt í siglingaleiðangri samtakanna eXXpedition þar sem markmiðið er að rannsaka og vekja athygli á plastmengun í heimshöfunum. Hún segist hlakka til að takast á við áskorunina og vonast til þess að þátttakan verði nemendum og samstarfsfólki bæði hvatning til aðgerða í umhverfismálum og að stíga út fyrir þægindarammann.

eXXpedition eru óhagnaðardrifin samtök sem stofnuð voru fyrir sex árum og hafa staðið fyrir siglingunum um heiminn undanfarin ár. Meginmarkmið þeirra er að standa fyrir rannsóknaleiðöngrum þar sem varpað er ljósi á plastmengun í hafinu en eins og margir vita eykst hún hröðum skrefum ár frá ári. 

Samtökin ýttu úr vör sínu stærsta verkefni seint á síðasta ári, eXXpedition Round the World, en þar gefst 300 konum úr ýmsum greinum kostur á að sigla um heiminn, vinna saman að nýstárlegum rannsóknum á plastmengun og um leið skapa tengsl til framtíðar og í framhaldinu miðla reynslu sinni í heimalöndum sínum.

„Ég sótti um að taka þátt í leiðangri eXXpedition af hreinni og klárri ævintýramennsku. Og þó ekki. Ég hef lengi unnið að umhverfismálum og stundað margs konar útivist en það var af tilviljun sem þennan leiðangur rak á fjörur mínar. Þegar ég kynnti mér nánar um hvað hann snerist sá ég fljótlega að þetta var eitthvað sem höfðaði til mín. Sambland af útivist, ævintýramennsku og faglegri umræðu um umhverfismál. Ég á tvær vinkonur sem hafa tekið þátt í leiðangri Homeward Bound til Suðurskautslandsins – allt annað verkefni og allt annað batterí – og þær höfðu hvatt mig til að sækja um þátttöku í því. Mér fannst þessi leiðangur hins vegar bjóða upp á meiri aksjón, meiri nálægð og nánari samskipti og fannst hann henta mér betur,“ segir Helena.

Kórónuveiran seinkar siglingunni

Í hnattsiglingu eXXpedition skipta 300 með sér 30 leggjum leiðarinnar. „Samtökunum hafa borist um 10.000 umsóknir frá konum hvaðanæva úr heiminum og búið er að velja þátttakendur í flesta leggina. Val fór fram með skriflegri umsókn, myndbandsgerð og viðtali á netinu þar sem kafað er í bakgrunn umsækjenda, reynslu og menntun ásamt líkamlegu og andlegu atgervi,“ segir Helena sem hefur í starfi sínu á Menntavísindasviði Háskóla Íslands kennt námskeið tengd umhverfis- og náttúrvísindum og loftslagsbreytingum. Auk þess rekur hún fyrirtækið Pathfinder sem veitir fyrirtækjum ráðgjöf á sviði sjálfbærni og samfélagslegrar ábyrgðar.

siglingaleid

Siglingaleggir eXXpedition Round the World.

Að sögn Helenu verða 14 konur í áhöfninni á hverjum legg, 4 sem bera ábyrgð á siglingunni og 10 þátttakendur eins og hún. „Við skiptum með okkur öllum verkum, stöndum vaktir sem hásetar, hvort sem það er að vaka við stýrið, elda ofan í áhöfnina, starfa á rannsóknarstofunni eða þrífa vistarverurnar. Skútan sjálf er 75 fet,“ segir hún.

Upphaflega stóð til að Helena legði ásamt sínum hópi úr höfn frá Suður-Afríku í nóvember næstkomandi en kórónuveiran hefur haft áhrif á siglingaáætlunina. „Það hefur verið gert hlé á leiðangrinum vegna heimsfaraldurs COVID-19 en það gefur augaleið að ekki er hægt að þvera Atlantshafið eða sigla hvaða legg sem er á hvaða tíma ársins sem er. Það verður því ekki fyrr en í árslok 2021 sem ég held úr höfn í Höfðaborg. Siglingin sem ég tek þátt í er um fjögurra vikna löng, þvert yfir Suður-Atlantshafið þar sem Benguela-hafstraumnum verður fylgt með vesturströnd Afríku og svo haldið í vestur að norðausturodda Brasilíu með Miðjarðarstraumi Suður-Atlantshafs,“ útskýrir Helena.

Hún bendir áhugasömum konum á að leiðangurinn liggi um allan heim og að umsóknarferlinu í alla leggi leiðangursins sé ekki lokið. „Það á eftir að auglýsa síðustu leggina og þá verður hægt að sækja um þátttöku í þeim. Leiðangurinn kemur t.d. með að sigla til Íslands áður en yfir lýkur og ekki er búið að velja þátttakendur ennþá í þann legg!“ segir hún enn fremur.
 

„Ég hef í 15 ár unnið á vettvangi umhvefismála og fylgst með þeim árangri sem náðst hefur en jafnframt þarf stöðugt að leita leiða til að gera betur. Í leiðangrinum stundum við rannsóknir á og ræðum áhrif plasts á höfin og heilbrigði hafsins skiptir miklu máli í allri umræðu um umhverfis- og loftslagsmál,“ segir Helena Westhöfer Óladóttir, umhverfisfræðingur og aðjunkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Þarf að geta starfað í 45 gráðu halla

Í umsóknarferlinu þurfa umsækjendur m.a. að sýna fram á hvernig þeir sjá fyrir sér að nýta reysluna til að stuðla að aukinni umhverfisvitund og -umræðu. Helena segist aðspurð vonast til þess að reynslan auðgi hana bæði í starfi og persónulegu lífi. „Ég hef í 15 ár unnið á vettvangi umhvefismála og fylgst með þeim árangri sem náðst hefur en jafnframt þarf stöðugt að leita leiða til að gera betur. Í leiðangrinum stundum við rannsóknir á og ræðum áhrif plasts á höfin og heilbrigði hafsins skiptir miklu máli í allri umræðu um umhverfis- og loftslagsmál,“ segir hún.

„Ég vonast líka til þess að þátttaka mín verði nemendum mínum og samstarfsfólki hvatning til að taka ábyrga afstöðu með umhverfinu og efli kjark sem flestra til að stíga út fyrir þægindarammann og takast á við nýjar áskoranir,“ segir Helena spurð um hvernig leiðangurinn muni geta nýst henni í starfi við Háskóla Íslands.

Aðspurð hvort hún státi af mikilli siglingareynslu og hvort hún þurfi að undirbúa sig sérstaklega fyrir ævintýrið segir Helena að reynsla hennar af útvist sé fyrst og fremst á landi, m.a. sem landvörður og leiðsögumaður. „Jú, reyndar, ég eignaðist á síðasta ári róðrarbretti (e. Stand Up Paddle board) sem opnaði augu mín fyrir vötnum og strandsvæðum til útivistar. En ég er ekki siglingakappi. Þess er ekki krafist og alla þjálfun fáum við um borð áður en haldið er yfir Atlantshafið sjálft. Leiðangrinum er stýrt af reynslumiklum konum sem hafa stundað siglingar um áratugaskeið og ég eins og hinar mun leggja mig fram um að ná tökum á reipunum, orðaforðanum og sjóveikinni á sem skemmstum tíma. Reyndar var ein þeirra krafna sem gerð var í umsóknarferlinu að viðkomandi gæti starfað að fullu í allt að 45° halla og ég er sannfærð um að það hljóti ég að geta – ég læri það þá,“ segir Helana glettin að endingu.

Hægt er að kynna sér samtökin eXXpedition og leiðangurinn á vefnum www.exxpedition.com og þá má fylgjast með undirbúningi Helenu á Instagram-reikningi hennar.

eXXpedition-báturinn á siglingu