Rannsakaði mótun leiklistar á Íslandi 1850-1930 | Háskóli Íslands Skip to main content
8. maí 2017

Rannsakaði mótun leiklistar á Íslandi 1850-1930

""

Magnús Þór Þorbergsson hefur varið doktorsritgerð sína í almennri bókmenntafræði, A Stage for the Nation. Nation, Class, Identity and the Shaping of a Theatrical Field in Iceland 1850-1930, við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Doktorsvörnin fór fram í Hátíðasal þriðjudaginn 2. maí síðastliðinn og það var Gunnþórunn Guðmundsdóttir, deildarforseti Íslensku- og menningardeildar, sem stjórnaði athöfninni.

Andmælendur voru Joanna Robinson, dósent í leiklistarfræðum við University of Nottingham og Ólafur Rastrick, lektor í þjóðfræði. Aðalleiðbeinandi Magnúsar var Benedikt Hjartarson prófessor, en í doktorsnefnd voru auk hans þeir Terry Gunnell, prófessor í þjóðfræði, og Stephen Elliot Wilmer, prófessor emeritus í leiklistarfræðum við Trinity College Dublin.

Hægt er að skoða myndir frá vörninni með því að smella hér.

Um doktorsritgerðina

Ritgerðin er rannsókn á tengslum leiklistar og leiklistarstarfsemi við sviðsetningu á sjálfsmynd þjóðar og mótun leiklistarvettvangs á Íslandi 1850-1930. Meginviðfangsefni rannsóknarinnar eru að spyrja hvernig skoða má leikhús sem vettvang fyrir mótun og sviðsetningu sjálfsmyndar þjóðar á síðari hluta nítjándu aldar og í byrjun þeirrar tuttugustu, hvernig sviðsetning þjóðarinnar í leikhúsinu endurpeglar og tekst á við samfélagslegt og stjórnmálalegt umrót tímabilsins og hvernig breytingar á verkefnavali og starfsemi Leikfélags Reykjavíkur sem leiðandi leikhúss landsins, eru til marks um breytingar á sjálfsmynd þjóðar og samfélagsgerð. Til að svara þessum spurningum beinir ritgerðin sjónum að upphafi og þróun leiklistarvettvangs á Íslandi, með megináherslu á Reykjavík, frá fyrstu opinberu leiksýningunum um miðja nítjándu öld fram til 1930, þegar bygging væntanlegs þjóðleikhúss stöðvast. Rannsóknin styðst við kenningar Pierres Bourdieu um menningarvettvang (e. cultural field) í greiningu á þróun íslensks leikhúss á tímabilinu og þeirri umræðu sem átti sér stað um lögmæti athafna, gjörða og staðsetninga innan leiklistarvettvangsins. Ritgerðin sækir einnig í kenningar leiklistarfræðingsins Loren Kruger um sviðsett þjóðerni (e. theatrical nationhood) til að varpa ljósi á sviðsetningu þjóðarinnar í leikhúsinu, ekki aðeins á sviðinu, heldur einnig sem stofnun og samastaður hins opinbera sviðs. Rannsóknin beinir því sjónum að opinberri umræðu um leiklist auk þess að skoða athafnir og aðgerðir einstakra leikenda innan leiklistarvettvangsins eins og þær birtast t.d. í einstökum leikritum og leiksýningum tímabilsins, sem og í verkefnavali einstakra leikhópa, og tengsl þeirra við breytingar á sjálfsmynd þjóðar, stéttamyndun og samfélagsgerð.   

Um höfund

Magnús Þór Þorbergsson (f. 1. apríl 1971) lauk BA-prófi í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands 1994 og MA-prófi og leiklistarfræðum frá Freie Universität Berlin 1999. Hann hefur starfað sem lektor við Sviðslistadeild Listaháskóla Íslands og gegndi þar stöðu fagstjóra Sviðshöfundabrautar frá stofnun brautarinnar árið 2005 til ársins 2012. Frá árinu 2015 hefur Magnús verið stundakennari við Sviðslistadeild LHÍ og Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands samhliða doktorsnámi sínu.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, Ólafur Rastrick, Magnús Þór Þorbergsson, Joanna Robinson og Guðmundur Hálfdanarson.