Skip to main content
6. nóvember 2015

RaKi Balkanband og dans á Alþjóðadegi

Það verður mikið um að vera á Alþjóðadegi Háskóla Íslands sem haldinn verður fimmtudaginn 12. nóvember kl. 14-15.30 á Háskólatorgi. Viðburðurinn er ætlaður bæði nemendum, kennurum og öðru starfsfólki háskólans.

Margvíslegar alþjóðlegar uppákomur verða á Torginu sem enginn ætti að láta framhjá sér fara. Hið frábæra Balkanband RaKi spilar ljúfa tóna, Múa Nón danshópurinn stígur víetnamskan dans og sýndur verður rússneskur dans við þjóðlagið Kalinka. Nemendur eiga þess kost að taka þátt í happdrætti og gestir geta smakkað alþjóðlega rétti og drykki.

Gestum gefst færi á að ræða við fulltrúa sendiráða og ræðisskrifstofa, erlenda skiptinema, fyrrverandi skiptinema og fulltrúa fjölmargra íslenskra stofnana sem og félaga um fjölþætt tækifæri til náms og samstarfs.

Eftirtaldir verða með kynningarborð á Alþjóðadeginum:
Sendiráð Bretlands, Danmerkur, Frakklands, Japans, Kanada, Noregs, Póllands, Rússlands og Svíþjóðar; Ræðisskrifstofur Færeyja, Hollands og Ítalíu; Fulbright stofnunin, Skrifstofa alþjóðasamskipta, Upplýsingastofa um nám erlendis, SÍNE, Norræna félagið, LÍN, Mennta- og menningarsvið Rannís, Konfúsíusarstofnunin, Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, ESN Háskóla Íslands, alþjóðanefnd stúdentaráðs og skiptinemar.

Um kvöldið verður uppistand á ensku í Stúdentakjallaranum og tilboð á alþjóðlegum drykkjum.

Dagskrá Alþjóðaviku 9.-13. nóvember

Í vikunni verður boðið upp á spennandi fyrirlestra, kynningar, bíósýningar, tónlist, pubquiz og uppistand. Enn fremur verður alþjóðleg stemning í Hámu og í Stúdentakjallaranum.

Starfsfólki Háskóla Íslands gefst kostur á að kynna sér samstarf og styrki innan Erasmus+, Nordplus og Uppbyggingarsjóðs EES á fimmtudeginum kl. 12. Fulltrúar frá Rannís kynna möguleikana og fara yfir umsóknarferlið.

Á föstudeginum kl. 10.30 geta áhugasamir um nám erlendis á eigin vegum fengið upplýsingar á örfyrirlestri frá Upplýsingastofu um nám erlendis.

Í Stúdentakjallaranum verða sýndar alþjóðlegar kvikmyndir á mánudegi, þriðjudegi og miðvikudegi kl. 17. Á miðvikudeginum verður boðið upp á barsvar á ensku kl. 20, á fimmtudeginum verður uppistand á ensku kl. 21 og á föstudeginum spilar hin kraftmikla hljómsveit Bangouraband frá kl. 22.

Frá Alþjóðadegi Háskóla Íslands 2014