Rætt um samstarf við Technion-háskólann í Ísrael | Háskóli Íslands Skip to main content

Rætt um samstarf við Technion-háskólann í Ísrael

8. maí 2018
""

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, heimsótti á dögunum Technion-háskólann í Haifa í Ísrael þar sem hann ræddi m.a. mögulegt samstarf skólanna tveggja, nýsköpunarstarfsemi og flutti erindi um rannsóknir sínar.

Technion-háskólinn er elsti háskóli Ísraels, stofnaður árið 1912, og er því einu ári yngri en Háskóli Íslands. Skólinn stendur framarlega á sviði verkfræði, tækni og arkítektúrs og er nemendafjöldinn svipaður og í Háskóla Íslands, um 14 þúsund. Þá er Technion leiðandi í nýsköpun og tækniyfirfærslu. Hafa um 70 sprotafyrirtæki sprottið úr rannsóknum vísindamanna skólans á undanförnum árum, en þar af eru tíu nú á hlutabréfamarkaði.

Í heimsókn sinni átti rektor fund með Peretz Lavie, rektor Technion-háskólans, sem er prófessor í læknisfræði. Lavie hefur heimsótt Ísland nokkrum sinnum og þekkir einnig vel til íslenskra vísindamanna á hans rannsóknasviði. Á fundinum með Lavie var rætt um nýsköpun og mögulegt samstarf skólanna á sviði rannsókna. Þess má geta að Lavie er raðfrumkvöðull sem stofnað hefur fjögur sprotafyrirtæki. Í framhaldi fundarins verða einnig skoðaðir möguleikar á stúdentaskiptum og sameiginlegum prófgráðum á milli Háskóla Íslands og Technion. Í heimsókninni fékk rektor jafnframt góða kynningu á nýsköpunarstarfi Technion-skólans og átti m.a. fundi með forsetum umhverfis- og byggingarverkfræðideildar og rafmagnsverkfræðideildar skólans. 

Jón Atli hélt jafnframt erindi við umhverfis- og byggingarverkræðideild Technion um rannsóknir sínar og samstarfsfélaga á sviði fjarkönnunar, starfrænnar myndvinnslu og vélræns nám en Háskóli Íslands stendur mjög framarlega á þessu sviði.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, ásamt Peretz Lavie, rektor Technion-háskólans.

Netspjall