Skip to main content
11. júlí 2020

Ráðstefna um orku líka á netinu

„Markmið CHARGE er að hjálpa aðilum innan orkugeirans að eiga innihaldsrík samskipti við hagsmunaaðila. Þetta á við um alla þá sem höndla með orku með beinum hætti , þ.e. frameiðendur, flutningsaðila, dreifingarfyrirtæki og endursöluaðila. En þetta á einnig við um alla aðra innan virðiskeðjunnar, s.s. birgja, vottunaraðila auk borga sem vilja vera grænar og heil þjóðríki.“

Þetta segir Friðrik Larsen, dósent í markaðsfræði og vörumerkjastjórnun við Háskóla Íslands og forsprakki CHARGE sem hefur orkumál í háskerpu. CHARGE hefur haldið nokkra alþjóðlega viðburði á Íslandi undanfarin ár í samstarfi við Háskóla Íslands þar sem áhersla hefur verið á vörumerkjastjórnun og markaðssetningu í orkugeiranum.  Nú stendur yfir fundaröð á netinu sem CHARGE heldur ásamt Háskóla Íslands og Enel Foundation. Þar er lagður höfuðþungi á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Með fundaröðinni er ætlunin m.a. að beina augum alþjóðlegs fræðisamfélags að Íslandi þar sem endurnýjanleg orka er í hávegum höfð.

Inntak rafrænu fundarraðarinnar tengist COVID-19 heimsfaraldrinum og með hvaða lagi hann hefur haft áhrif á framboð og eftirspurn eftir orku ásamt áhrifum á fjárfestingu í orkugeiranum.  Á fyrsta rafræna fundinum er fjallað um græn vörumerki og tengsl þeirra við fjárhagslega afkomu. Til leiks mætir Dr. Mark Kramer, einn virtasti fræðimaður heims frá Harvard Business School.

Orkufyrirtæki ekki mikið beint sjónum að mörkun vörunnar

Að Friðriks sögn hafa orkufyrirtæki í raun lítið þurft að hafa fyrir því að laða til sín trygga viðskiptavini í gegnum tíðina, huga að vörumerkjum eða ímynd sinni þar sem flest orkufyrirtæki heimsins hafa boðið upp á nauðsynjavöru – oft í skjóli einokunar eða ríkisreksturs.  Með sífelldri tækniþróun hefur þeim fjölgað til muna sem nú geta boðið upp á orku og því horfa orkufyrirtæki heimsins til þess að þurfa að bregðast við fyrrnefndum atriðum. 

„Á fyrstu ráðstefnunni okkar var fjallað um mörkun orku í víðu samhengi og af hverju fyrirtæki ættu að spá í  mörkun á annað borð,“ segir Friðrik. „Í síðari viðburðum var líka rýnt dýpra í einstaka þætti innan geirans, s.s. rafgöngur, en það orð nota ég yfir rafmagnaðar samgöngur á lofti, láði og legi, grænar borgir og lönd, löggjafann o.fl. Í fyrra, þegar loks var kominn traustari viðskiptalegur grunnur, var bætt við akademískri ráðsstefnu til að fjalla fræðilega um þetta viðfangsefni. Sjálfur stend ég með fæturna í báðum geirum, akademíunni og í hinu viðskiptalega umhverfi.   Ég tel að hámarksárangur náist ef það besta er gripið úr báðum geirum. Þá hef ég einfaldlega akademískan metnað fyrir því að safna saman fræðimönnum til að rýna þetta málefni sem ég tel mikla þörf á að við þekkjum miklu betur. Fræðilega viðburðinn kalla ég CHARGE Academic.“

Mikilvægt að orka sé mörkuð eða „brönduð“

Friðrik segir að það sé nákvæmlega jafn mikilvægt að „branda“ orku eins og aðrar vörur. Hann vill nota orðið „branda“ um mörkun en enska orðið brand er dregið af norræna orðinu brandr sem við þekkjum flest býsna vel Íslendingar. „Mikilvægi þess að branda orku kom fram í niðurstöðum doktorsritgerðarinnar minnar sem og í fjölmörgum öðrum rannsóknum,“ segir Friðrik. „Það þýðir samt ekki að þetta sé viðtekin skoðun innan orkugeirans. Þvert á móti. Þar eiga félagsvísindi gjarnan lítt upp á pallborðið því fólk er oft uppteknara af „alvarlegri“ málum,“ segir Friðrik og brosir.  „CHARGE var sett til höfuðs slíkri hugsun og hefur náð að breyta hugarfari mjög margra innan geirans á aljóðavísu. Fyrir okkur Íslendinga er þetta einstaklega mikilvægt. Við erum orkuríki en það er ekkert sjálfgefið að aðrir sjái okkur þannig. Það þarf að beita lögmálum vörumerkjastjórnunar til að pakka inn skilaboðum okkar og varpa út í heim. Það hefur ekki verið gert með markvissum hætti hingað til. Okkar dýrmætasta auðlind er hreina orkan okkar. Hana búum við til með því að nýta náttúruauðlindir á sjálfbæran hátt. Við eigum líka að virkja hugvitið. Í þessu tvennu leikur Háskóli Íslands lykilhlutverk.“

Friðrik stefnir áfram að því að halda stóra orkuráðstefnu á Íslandi á þessu ári eins og undanfarin ár en hann segir að heimsfaraldurinn hafi vægast sagt haft mikil áhrif á sína fyrirætlanir og óvissan sé ennþá mikil. 

„Ljósið í myrkrinu er að fyrst við munum varpa viðburðinum rafrænt út í kosmósið, samhliða því sem fólk mætir, þá geta miklu fleiri tekið þátt. Það er nú svo að Ísland er ekki jafn aðgengilegt og flest önnur lönd sem við berum okkur saman við. Það er líka kostnaðarsamt að fljúga hingað og það tekur langan tíma að ferðast. Það þýðir að ár hvert sækja um 300 manns viðburðinn en með því að hagnýta netið er hægt að margfalda fjölda viðskiptavina. Við gerum ráð fyrir að allt að þúsund manns mæti rafrænt í ár.“

Friðrik Larsen, dósent í markaðsfræði og vörumerkjastjórnun við Háskóla Íslands