Skip to main content
15. maí 2018

Öfl sem móta menntakerfið til umræðu

Félag um menntarannsóknir stendur fyrir ráðstefnu um menntun, samfélag og samvinnu í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands 16. maí nk. kl. 9.30-16.30.

Við lifum á tímum þar sem margvísleg öfl móta og breyta menntakerfinu; tækni, menning og stjórnmál. Markmið ráðstefnunnar er að leiða saman fagfólk, fræðimenn, fulltrúa stjórnvalda, nemendur og foreldra til að ræða sameiginlega ábyrgð á mótun og framkvæmd menntastefnu. Meðal viðfangsefna á ráðstefnunni eru stefnumótun, félagslegur jöfnuður, óformleg menntun og sjónarhorn foreldra.

Aðalfyrirlesarar ráðstefnunnar eru Jón Torfi Jónasson, prófessor emeritus við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Helen Janc Malone, forstöðumaður á sviði stjórnskipunar og menntastefnu við Institute of Educational Leadership í Washington. Í fyrirlestri Jóns Torfa verður skoðað hvernig hugmyndir um skóla og menntun kunna að hafa breyst og hvort margvísleg þróun allra þátta samfélags og menningar kalli á stórvægilegar breytingar. Helen mun fjalla um þörfina á því að endurskoða markmið menntunar, að efla heildstæða sýn á menntun og mikilvægi þess að koma á víðtæku samráði milli stofnana, ólíkra fagstétta, nemenda og foreldra. 
  
Auk aðalfyrirlesara verða flutt ríflega fjörutíu spennandi erindi í málstofum, bæði á íslensku og ensku.  Fjallað verður á heildstæðan hátt um menntun og tengsl formlegs og óformlegs náms, æskulýðs- og tómstundastarf og menntun sem fólk aflar sér utan við skólakerfið.

Ráðstefnan er opin öllu áhugafólki um menntamál og er þátttökugjald 3.000 krónur. Innifalið í ráðstefnugjaldi er hádegisverður og léttar veitingar síðdegis.

Að ráðstefnunni standa auk Háskóla Íslands, Háskólinn á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Heimili og skóli, Félag fagfólks í frítímaþjónustu, Samband íslenskra framhaldsskólanema, Umboðsmaður barna, Menntavísindastofnun og Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri. 

Ráðstefnan er styrkt af Menntavísindasviði Háskóla Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Kennarasambandi Íslands. 

Pennaveski