Skip to main content
2. október 2019

Óður til hins stutta í nýrri rannsóknastofu 

STUTT – rannsóknastofa í smásögum og styttri textum hefur verið stofnuð innan Háskóla Íslands. Rannsóknastofan er vettvangur fyrir rannsóknir, þýðingar og miðlun á smásögum og styttri textum fyrir fræðimenn og þýðendur úr ólíkum áttum. Með styttri textum er meðal annars átt við örsögur, brot, exempla, anekdótur, ævintýri, þjóðsögur, fabúlur, strengleika/stuttar ljóðsögur og esseyjur. STUTT heyrir undir Hugvísindasvið og starfar innan vébanda Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. 

Hugmyndina um rannsóknastofuna má rekja til þess að margir fræðimenn innan Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur hafa löngum haft mikinn áhuga á, þýtt og gefið út smásögur. Þá hafa stuttir textar verið notaðir í kennslu bókmennta á Hugvísindasviði. Smásögur eru bókmenntagrein sem hefur átt í vök að verjast. STUTT vill því lyfta smásögunni og gera hana sýnilegri innan bókmenntaheimsins og í samfélaginu. 

Markmið rannsóknastofunnar eru að:
•    standa fyrir málstofum, málþingum og ráðstefnum,
•    skipuleggja rannsóknarverkefni og eiga aðild að þeim,
•    beita sér fyrir útgáfu efnis um smásögur og styttri texta,
•    beita sér fyrir þýðingum og útgáfu á smásögum og styttri textum,
•    leiða saman höfunda, þýðendur og fræðafólk úr ólíkum greinum og tungumálum,
•    stuðla að samstarfi við stofnanir innan og utan Háskóla Íslands.

Í tilefni af stofnun rannsóknastofunnar verður haldið málþing, Óður til hins stutta, í Veröld - húsi Vigdísar fimmtudaginn 3. október kl. 16:30-18:00. Á málþinginu verður stofan kynnt og haldin verða stutt erindi um fjölbreytileika smásögunnar og ættingja hennar innanlands sem utan. Einnig verður lesið upp úr frumsömdum og þýddum verkum. 

Þátttakendur eru: Ásdís Rósa Magnúsdóttir, Ástráður Eysteinsson, Kristín Guðrún Jónsdóttir, Rósa Þorsteinsdóttir, Rúnar Helgi Vignisson, Sigurbjörg Þrastardóttir, Þórdís Helgadóttir og Gísli Magnússon. Boðið verður upp á léttar veitingar að þingi loknu. 

Á vefsíðu STUTT er hægt að nálgast nánari upplýsingar um rannsóknastofuna.