Nýtt hlaðvarp um samfélagsmál í umsjón kennara í félagsfræði | Háskóli Íslands Skip to main content

Nýtt hlaðvarp um samfélagsmál í umsjón kennara í félagsfræði

27. nóvember 2017
Sigrún Ólafsdóttir prófessor og Kjartan Páll Sveinsson nýdoktor.

Nýr hlaðvarpsþáttur hóf göngu sína í Hlaðvarpi Kjarnans í dag. Samtal við samfélagið er þáttur um samfélagsmál í umsjón Sigrúnar Ólafsdóttur, prófessors í félagsfræði, og Kjartans Páls Sveinssonar, nýdoktors í sömu grein við Háskóla Íslands.

Sigrún fékk hugmyndina að hlaðvarpi helguðu félagsfræði eftir að hún varð mikill aðdáandi hlaðvarpsþátta fyrir nokkrum árum. Félagsfræðinni er fátt óviðkomandi og er hugmyndin að ræða ýmis samfélagsmál út frá félagsfræðilegu sjónarhorni og kynna þær áhugaverðu rannsóknir sem unnið er að hér á landi.

Í þáttunum verður talað við félagsfræðinga á öllum aldri og í hinum ýmsu stöðum í samfélaginu. Sem dæmi verður í næstu þáttum fjallað um tónlist sem andóf þar sem Arnar Eggert Thoroddsen ræðir m.a. við breska tónlistarmanninn Billy Bragg. Einnig verður birt viðtal við Daníel E. Arnarsson, félagsfræðing og framkvæmdarstjóra samtakanna 78, og fram undan er skemmtilegt spjall við Sunnu Símonardottur nýdoktor um móðurhlutverkið og væntingar til foreldra í íslensku samfélagi. Hlustendur mega jafnframt búa sig undir þætti um hin ýmsu hitamál í samfélaginu, eins og innflytjendamál, heilbrigðismál, ójöfnuð og margt fleira sem félagsfræðin getur veitt nýja innsýn í.

Kennarar í félagsfræði við HÍ. Á mynd frá vinstri eru: Jón Gunnar Bernburg, Ingólfur V. Gíslason, Stefán ´Ólafsson, Sigrún Ólafsdóttir, Thamar Heijstra, Kjartan Páll Sveinsson, Viðar Halldórsson, Arnar Eggert Thoroddsen. Fyrir aftan standa: Stefán Hrafn Jónsson og Helgi Gunnlaugsson.

Netspjall