Skip to main content
22. janúar 2019

Nýsköpun snýst um að mæta kröfum og þörfum

Maður með búnað Sound of Vision

„Eins og ég sé þetta þá snýst nýsköpun um að mæta þörfum og kröfum. Hvað varðar samfélagið þá breytast þarfir þess og kröfur stöðugt; t.a.m. eru síauknar kröfur um umhverfisvænni lausnir og aukið öryggi.“  Þetta segir Rúnar Unnþórsson, frumkvöðull, prófessor í iðnaðarverkfræði og deildarforseti við Háskóla Íslands. Rúnar mun flytja fyrirlestur í röðinni um Nýsköpun – Hagnýtum hugvitið ásamt Árna Kristjánssyni, prófessor í sálfræði, í Hátíðasal Háskóla Íslands þann 23. janúar 2019.  Fókusinn hjá þeim félögum verður á verðlaunaverkefnið Sound of Vision og hefst erindið kl. 12. Erindið er í boði Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands.

Bein útsending frá erindinu  

„Ég mun segja frá Sound of Vision verkefninu,“ segir Rúnar, „og út frá því ræða nýsköpun og vöruþróun og kosti samstarfs verkfræði og sálfræði. Árni mun ræða um skynskipti sem við nýttum í verkefninu.“  

Rúnar og Árni hafa vakið gríðarlega athygli víða í Evrópu fyrir að leiða rannsóknarverkefnið Sound of Vision, ásamt vísindamönnum við Háskóla Íslands. Verkefnið hlaut fyrstu verðlaun í flokknum „Tækni fyrir samfélag“ í úrslitum Nýsköpunarverðlauna framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Innovation Radar Prize 2018, sem afhent voru í Vín á dögunum. 

Markmiðið að auðvelda líf blindra og sjónskertra
Þeir Rúnar og Árni segja að markmið Sound of Vision sé að þróa hátæknibúnað til þess að hjálpa blindum og sjónskertum að skynja umhverfi sitt. Til að útskýra fyrir okkur hvernig lausnir virkar segir Rúnar að myndavélum sé komið fyrir á höfði notandans. 

„Upplýsingar úr myndavélunum eru matreiddar og þeim er svo miðlað með tæknibúnaði til notandans um hluti eða hindranir í umhverfinu. Notandinn er með heyrnartól, og hann heyrir í raun hvort hlutir eru til hægri eða vinstri. Hvort hurð eða stigi séu framundan eða hola í jörðinni. Meðal búnaðarins sem þróaður hefur verið innan verkefnisins er líka skynbelti sem sett er utan um mitti notandans og það miðlar einnig upplýsingum fyrir tilstilli lítilla mótora sem titra, hver með sínu lagi,“ segir Rúnar.  

Árni segir að blindir eigi að geta nýtt sér þessar upplýsingar án þess að nota hvíta stafinn. „Þeir munu bara sjá, innan gæsalappa, það sem er fram undan.“ Árni bætir því við að skynbeltið nýtist einnig þeim sem einhverra hluta vegna geta ekki notað hefðbundin skynfæri tímabundið. „Það getur átt við starfsfólk í ýmsum aðstæðum, eins og við reykköfun eða öryggisgæslu í hávaða. Þróun búnaðarins hefur verið unnin í góðu samstarfi við blint og sjónskert fólk hér á landi.“ 

Árni segir að mannsheilinn hafi gríðarlega hæfni til að endurskipuleggja sig. „Í þessu verkefni nýtum við þessa gríðarlegu hæfni heilans. Ef við missum skynfæri, til dæmis sjón, þá geta önnur skynfæri tekið yfir.“

Þverfræðilegt samstarf – betri árangur
Rúnar hefur margsinnis sýnt fram á mikilvægan þátt verkfræðinnar í mótun nútíma samfélags, hlutverk verkfræðinnar í samfélagslegri nýsköpun og hvernig áherslur á samfélagsábyrgð hafa þróast innan verkfræðinnar. Í Sound of Vision verkefninu var hins vegar ekki einungis stuðst við verkfræðina eins og áður kom fram við þróun lausna heldur þverfræðilega nálgun til að ná sem bestri útkomu. 

„Sound of Vision verkefnið er gott dæmi um þverfræðilegt samstarf. Að verkefninu komu vélaverkfræðingar, iðnaðarverkfræðingar, rafmagnsverkfræðingar, tölvunarfræðingar, sáleðlisfræðingar, og sérfræðingar í umferlisþjálfun og aðgerðum daglegs lífs.  Auk þess þá tóku þátt meistara- og doktorsnemar, nýdoktorar og sjónskertir einstaklingar,“ segir Árni.  

„Mín reynsla er að með aðkomu einstaklinga með mismunandi bakgrunn og mismunandi sýn á lífið þá næst betri niðurstaða. Það var aldrei skortur á hugmyndum. Vandamálið var frekar að takmarka hugmyndaflæðið og halda áætlun,“ bætir Rúnar við. 

„Upplýsingar úr myndavélunum eru matreiddar og þeim er svo miðlað með tæknibúnaði til notandans um hluti eða hindranir í umhverfinu. Notandinn er með heyrnartól, og hann heyrir í raun hvort hlutir eru til hægri eða vinstri. Hvort hurð eða stigi séu framundan eða hola í jörðinni. Meðal búnaðarins sem þróaður hefur verið innan verkefnisins er líka skynbelti sem sett er utan um mitti notandans og það miðlar einnig upplýsingum fyrir tilstilli lítilla mótora sem titra, hver með sínu lagi,“ segir Rúnar Unnþórsson um búnaðinn sem þróaður hefur verið.

Nýsköpunarverkefni sem bæta umhverfi og samfélag
Rúnar hefur tekið þátt í fjölmörgum samfélagslegum nýsköpunarverkefnum, til að mynda á sviði umhverfisverndar og heilbrigðisvísinda. Auk þessa hefur hann unnið að því að innleiða og þróa verkfræðilega lausn sem snýst um að lágmarka lífrænan úrgang sem fer í urðun eða landfyllingar hér á landi. Tæknin sem stuðst er við nefnist gösun. Allt lífrænt hráefni er hægt að gasa og er það gert með því að hita hráefnið í yfir 700 gráður á celcíus. Hráefnið er ekki brennt, einungis hitað. Við gösunina umbreytist hráefnið að mestu yfir í lofttegundir og gufar upp. Loftblandan sem myndast er þekkt undir nafninu syngas en hana má nýta á ýmsan veg. Þegar Rúnar er spurður um tilgang háskóla skortir ekki svör. „Lykilatriðið er að háskólarnir eru fyrir samfélagið og þeir þurfa að sinna þörfum þess - bæði hvað varðar menntun nemenda og rannsóknir.  Ef rétt er að málum staðið á þetta tvennt að stuðla að framförum. Nemendurnir útskrifast og taka þátt í atvinnulífinu og rannsóknir auka þekkingu okkar og í sumum tilvikum verða að nýjum eða betri aðferðum, vörum og þjónustu.“

Hvernig vinna athygli og sjónskynjun saman?
Árni Kristjánsson er prófessor við Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum hefur Árni aðallega fengist við að skilja sjónkerfi mannsins og hvernig athygli og sjónskynjun vinna saman. Til þess hefur hann notað svartíma- og nákvæmnimælingar, rannsóknir á augnhreyfingum með háhraðaaugnhreyfingamælingum, taugasálfræðilegar rannsóknir auk rannsókna með segulómmyndun. Árni hefur einnig rannsakað verkan sjónskynjunar og athygli hjá fólki með kvíðasjúkdóma og hjá fólki með lesblindu. 

Árni er einn þriggja forsvarsmanna Rannsóknastofu í skynjunarsálfræði þar sem 15 vísindamenn starfa í dag. Rannsóknir Árna hafa verið styrktar af Rannsóknasjóði Háskóla Íslands, Rannsóknasjóði Íslands, Human Frontiers Science Program og European Research Council. Hann hefur birt um 100 vísindagreinar í ritrýndum erlendum vísindatímaritum.

Mikilvægi nýsköpunar undirstrikað
Nýsköpun er undirstaða framfara og treystir samkeppnisstöðu landsins til langframa. Í nýju fundaröðinni er ætlunin að undirstrika mikilvægi nýsköpunar fyrir íslenskt samfélag. Fjallað verður um ferðalag hugmynda yfir í fullmótuð fyrirtæki eða afurð, hvernig íslenskt samfélag og stjórnvöld geta betur stutt við nýsköpunarstarf, fjármögnun frumkvöðlastarfs, tengsl og samstarf atvinnulífs og háskóla. Þá verður sjónum beint að þekkingarsamfélaginu sem er að rísa í Vatnsmýrinni, sérstaklega hugmyndafræði Vísindagarða sem ætlað er að tengja saman frumkvöðla, fyrirtæki, háskóla og stofnanir til að efla hagnýtingu rannsókna fyrir íslenskt samfélag.

Markmiðið með fundaröðinni Nýsköpun – Hagnýtum hugvitið er að eiga samtal um lausnir á mikilvægum samfélagslegum þáttum og áskorunum sem við glímum við á hverjum tíma. Í nýju röðinni er stefnt saman virtum rannsakendum úr Háskóla Íslands og fagfólki og frumkvöðlum víðar úr samfélaginu sem eiga það sameiginlegt að vinna að nýsköpun í íslensku og alþjóðlegu samfélagi.

Erindi þeirra Rúnars og Árna hefst klukkan 12 og stendur í um klukkustund. Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir. 

Rúnar Unnþórsson, prófessor í iðanaðarverkfræði, og Árni Kristjánsson, prófessor í sálfræði,