Ný bók: Menningararfur á Íslandi: Gagnrýni og greining | Háskóli Íslands Skip to main content
25. september 2015

Ný bók: Menningararfur á Íslandi: Gagnrýni og greining

Út er komin bókin „Menningararfur á Íslandi: Gagnrýni og greining“. Í bókinni spyrja fjórtán höfundar gagnrýninna spurninga um menningararf, hvernig hann er notaður, af hverju og til hvers: Torfbæir og timburhús, handrit og hárlokkar, bátar og búningar, súrmatur og skyr, söguskilti og sögufrægir kvenskörungar. Hvernig stendur á því að sumu gömlu er hampað sem ómetanlegum menningararfi á meðan annað er léttvægt fundið og leyft að drabbast niður? 

Höfundarnir lýsa menningararfi sem sameiningar- og sundrungarafli, hugtaki sem fólk tekur til handargagns, hreyfiafli er drífur áfram athafnir þess, sjónarhorni á daglegt líf og umhverfi, hugsjón, auðlind og þrætuepli.

Ritstjórar eru Ólafur Rastrick og Valdimar Tr. Hafstein, en aðrir höfundar eru þjóðfræðingar, mannfræðingar, safnafræðingar, sagnfræðingar og bókmenntafræðingar: Áki Guðni Karlsson, Bryndís Björgvinsdóttir, Guðmundur Hálfdanarson, Helgi Þorláksson, Jón Þór Pétursson, Karl Aspelund, Katla Kjartansdóttir, Kristinn Schram, Marta Guðrún Jóhannesdóttir, Sigríður Helga Þorsteinsdóttir, Sigurjón Baldur Hafsteinsson og Tinna Grétarsdóttir.

Í tilefni af útgáfu bókarinnar „Menningararfur á Íslandi: Gagnrýni og greining“ kynna höfundar efni hennar með stuttum fyrirlestrum á útgáfudaginn 1. október kl. 14-17 og skála síðan og spjalla við gesti á Þjóðminjasafninu. Viðburðurinn er öllum opinn og aðgangur ókeypis. Boðið verður upp á léttar veitingar og bókin boðin á sérstöku afsláttarverði.

Í bókinni spyrja fjórtán höfundar gagnrýninna spurninga um menningararf, hvernig hann er notaður, af hverju og til hvers

Í tilefni af útgáfu bókarinnar „Menningararfur á Íslandi: Gagnrýni og greining“ kynna höfundar efni hennar með stuttum fyrirlestrum á útgáfudaginn 1. október og skála síðan og spjalla við gesti á Þjóðminjasafninu.

Viðburðurinn er öllum opinn og aðgangur ókeypis. Boðið verður upp á léttar veitingar og bókin boðin á sérstöku afsláttarverði.

Umsagnir um bókina 
„Á Íslandi lærum við að menningararfurinn tengi okkur við fortíðina, vísi okkur til framtíðar og geri okkur að Íslendingum. Bókin Menningararfur á Íslandi er mjög mikilvægt framlag til fræðimennsku og til almennrar umræðu á Íslandi. Þótt hvergi sé dregið í efa að menningararfur sé verðmætur er í bókinni sýnt fram á að hann er líka stjórntæki sem notað er til að skilja á milli okkar og hinna. Menningararfur ætti því að vera mikið umhugsunarefni nú á tímum þegar sterk öfl vilja draga skýr mörk þar á milli og ákvarða hversu langt samúð okkar eigi að ná. Menningararfur á Íslandi á því brýnt erindi við okkur öll.“
Arnar Árnason, dósent í mannfræði við University of Aberdeen

„Þessari mikilvægu bók er ætlað að kynna gagnrýnin menningararfsfræði á Íslandi og með hvaða hætti menningararfur og stjórnmál skarast á ýmsa lund. Viðfangsefni bókarinnar er fjölbreytt en þó sýnir hún einkum hvernig menningararfur hefur mótast og verið notaður á Íslandi til þess m.a. að hafa áhrif á hugmyndir um þjóðerni og þjóðernishyggju, kvenleika og karlmennsku, félagslegan virðingarstiga og samskipti Íslands við útlönd. Bókin á eftir að kynda undir gagnrýninni umræðu í háskólasamfélaginu, safnageiranum og stjórnsýslunni um eðli og inntak menningararfs á Íslandi.“
Laurajane Smith, prófessor í fornleifafræði við Australian National University
og ritstjóri International Journal for Heritage Studies

„Bókin er áskorun til safnafólks og minjavörslunnar, en ekki síður til samfélagsins alls. Hér leika ferskir vindar um menningararfinn, allt frá búningum til handrita og frá byggingararfi til matarhátta, um hið áþreifanlega og óáþreifanlega. Það að hafa skilning á menningararfinum er forsenda þess að við náum að bera virðingu fyrir fjölbreytileikanum. Höfundarnir taka efnið engum vettlingatökum og með nýjum rannsóknum þeirra á íslenskum menningararfi bjóða þeir upp á spennandi samræðu um varðveislu hans, túlkun og mikilvægi.“
Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður

„Skyldulesning fyrir alla þá sem vinna að miðlun menningararfs. Vilji söfnin tala fullum hálsi inn í samtímann verða þau að byggja starf sitt á gagnrýni og greiningu. Í þessari bók birtist ný og ögrandi nálgun á viðfangsefnið.“
Ágústa Kristófersdóttir, framkvæmdastjóri Safnaráðs

„Hvernig sköpum við fortíðina – snyrtum hana til, klæðum hana í búninga, málum af henni myndir, mótum hana og gerum meðfærilega og sýnilega, jafnvel söluvænlega – sem menningararf? Þetta er meðal þeirra gagnrýnu og stundum óþægilegu spurninga sem bornar eru fram í þessu nýja og heildstæða riti sem tekur á tilurð og framsetningu menningararfs í nútímanum. Bókin er spennandi og þarft innlegg í alla umræðu sem snýr að arfleifð og menningu í (al)þjóðlegu samhengi.“
Katrín Anna Lund, dósent í ferðamálafræði við Háskóla Íslands

„Menningararfur á Íslandi er brýnt fræðilegt innlegg í þjóðfélagsumræðu þar sem menn láta sig þjóðararfinn miklu varða en gagnrýni og uppbyggilegu tómlæti er verulega ábótavant. Ég hef ekki skemmt mér jafn vel yfir lestri síðan ég sökkti mér ofan í rit Oswalds Spengler um hnignun Vesturlanda á sínum tíma, þótt bækurnar séu að nokkru leyti ólíkar.“
Benedikt Hjartarson, prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands
 

Bókarkápa menningararfs á Íslandi.
Bókarkápa menningararfs á Íslandi.