Nota tungumálið til að greina taugahrörnunarsjúkdóma | Háskóli Íslands Skip to main content
5. febrúar 2021

Nota tungumálið til að greina taugahrörnunarsjúkdóma

Nota tungumálið til að greina taugahrörnunarsjúkdóma - á vefsíðu Háskóla Íslands

Verkefnið Mat á vitrænni hnignun með sjálfvirkri málgreiningu hefur fengið styrk úr Markáætlun í tungu og tækni. Verkefnisstjóri er Anton Karl Ingason, lektor í íslenskri málfræði og máltækni, og hann mun leiða verkefnið ásamt Elenu Callegari nýdoktor. Styrkurinn er um 69 milljónir króna.

Tilgangur verkefnisins er að samþætta máltækni, vélrænt nám og taugavísindi með það að markmiði að þróa frumgerð kerfis sem fagaðilar í heilbrigðiskerfinu geta notað til að greina og fylgjast með vitrænni hrörnun sem tengist fyrstu stigum taugahrörnunarsjúkdóma áður en veikindi ágerast. Með því að tvinna saman nýjar máltæknilausnir fyrir íslensku sem verið er að þróa í máltækniáætlun og vélrænt nám munu aðstandendur verkefnisins greina málsýni frá fólki með sjúkdóma sem fela í sér rýrnun á taugakerfi. Með því að tengja málfræðileg einkenni sýnanna beint við svokallaðar EEG-mælingar er ætlunin að ákvarða með hve nákvæmum hætti má nota tungumálið til að fá mynd af heilaheilbrigði einstaklinga.

Hlutverk Markáætlunar í tungu og tækni er annars vegar að vernda og efla íslenska tungu og hins vegar að auðvelda nýtingu nýrrar samskiptatækni í íslensku samfélagi, til hagsbótar almenningi, stofnunum og fyrirtækjum.

Anton Karl Ingason, lektor í íslenskri málfræði og máltækni, og Elena Callegari nýdoktor.