Skip to main content
9. janúar 2020

Nokkur sæti laus á eins dags námskeiði í samfélagslegri nýsköpun

""

Nokkur sæti eru laus í Kveikju, nýju og spennandi eins dags námskeiði fyrir nemendur á þriðja ári í grunnnámi í Háskóla Íslands, sem fer fram föstudaginn 17. janúar nk. 

Á námskeiðinu kynnast nemendur eigin styrkleikum betur, efla tengslanetið og vinna saman að nýsköpunarhugmyndum tengdum Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna þvert á námsleiðir og í samstarfi við öfluga leiðbeinendur úr háskólanum og atvinnulífi.

Þetta er í fyrsta sinn sem námskeiðið er haldið en það fer fram milli kl. 8 og 18.30. Nemendur sem taka þátt í viðburðunum og standa skil á nauðsynlegri undirbúningsvinnu fá námskeiðið metið til eininga (1 ECTS-eining). 

Á námskeiðinu koma nemendur af öllum fimm fræðasviðum skólans saman og er dagskráin afar metnaðarfull. Hún samanstendur af bæði stuttum hugvekjum frá reynslumiklu fólk úr atvinnu- og þjóðlífi, samtali við fólk úr atvinnulífinu og samvinnu nemenda um nýjar lausnir við einhverjum af helstu áskorunum samtímans, sem finna má í Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Námskeiðið er opið takmörkuðum fjölda nemenda og eru aðeins nokkur sæti laus fyrir nemendur á Heilbrigðisvísinda-, Hugvísinda, og Menntavísindasviði.

Skráning stendur nú yfir á vef Háskóla Íslands en þar má einnig finna frekar upplýsingar um námskeiðið. Áhugasamir geta jafnframt haft samband við Auði Örlygsdóttur verkefnisstjóra, audurorl@hi.is, fyrir frekari upplýsingar og skráningu.
 

""