Nemendur kynntu fæðingar- og fósturrannsóknir sínar | Háskóli Íslands Skip to main content

Nemendur kynntu fæðingar- og fósturrannsóknir sínar

11. maí 2018
""

Sex nemendur Læknadeildar og Lyfjafræðideildar Háskóla Íslands kynntu rannsóknir sínar á árlegum fundi norræns tengslanets um fæðingar-og fósturrannsóknir (Nordic Network of Fetal Medicine - NNFM) sem fram fór í Reykjavík dagana 3.-4. maí síðastliðinn. 

Tengslanetið er ungt en þetta var fjórði fundur hópsins. Haldin var sérstök dagskrá fyrir unga vísindamenn á fundinum þar sem þeir kynntu sína vinnu og góð verðlaun voru í boði. Sex íslenskir nemar tóku þátt sem fyrr segir, fjórir læknanemar og tveir doktorsnemar í lyfjafræði.

Þrjú nemanna höfðu rétt lokið við kynningu á BS-verkefnum sínum deginum áður og fengu nú tækifæri til að kynna verkefnin sín á ensku fyrir þennan hóp. Þetta voru þau Ásdís Björk Gunnarsdóttir, sem kynnti verkefnið „Central Nervous System Defects diagnosed in utero and after birth in Iceland 1992-2016“, Berglind Gunnarsdóttir með verkefnið „Congenital cardiac anomalies diagnosed prenatally and during the first year of life 2014 – 2017“ og Brynjar Guðlaugsson með verkefnið „RhD antibodies in pregnancy in Iceland during the period of 1996-2015“. Tijana Drobnjak kynnti verkefni sitt „Functional properties and mechanism of action of Placental Protein 13 (PP13)“ og Helga Helgadóttir verkefnið „Vasodilatation of aspirin on resistant arteries from nongravid vs. gravid rats“, en þær eru báðar doktorsnemar í lyfjafræði. Loks kynnti Jóhanna Vigdís Ríkharðsdóttir, 6. árs læknanemi verkefni sitt „The majority of early term elective cesarean sections can be postponed“.

Þóra Steingrímsdóttir, prófessor við Læknadeild, fór fyrir dómnefnd fundarins en fulltrúar allra norrænu ríkjanna og  Eystrasaltslandanna áttu sæti í henni. Gefin voru stig fyrir flutning, frumleika, uppsetningu rannsóknar, vísindalegt gildi , ályktanir og hvert mikilvægi verkefnisins er í heild. Svo fór að Jóhanna Vigdís hlaut verðlaun fyrir erindi sitt og að launum fékk hún 60.000 króna gjafabréf frá 66°N. 

NNFM óskar unga fólkinu til hamingju, þau eru öll glæsilegir fulltrúar Íslands.

Á myndinni eru nemarnir sex sem kynntu verkefni sín. Lengst til vinstri er Helga Helgadóttir í pontu, þá Berglind Gunnarsdóttir, Tijana Drobnjak, Brynjar Guðlaugsson, Ásdís Björk Gunnarsdóttir og Jóhanna Vigdís Ríkharðsdóttir. 
Jóhanna Vigdís Ríkharðsdóttir