Móðurmál fjöltyngdra nemenda oft falin í skólastarfi | Háskóli Íslands Skip to main content
6. september 2021

Móðurmál fjöltyngdra nemenda oft falin í skólastarfi

Móðurmál fjöltyngdra nemenda oft falin í skólastarfi  - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Niðurstöðurnar sýna að öll tungumál nemenda eru hluti af þeirra sjálfsmynd og hafa skýrt hlutverk í lífi þeirra og námi. Skólareynsla fjöltyngdra nemenda var jákvæð, þeim leið vel og náðu góðum árangri, ekki hvað síst vegna þess að þeir sóttu móðurmálskennslu utan skólans, sem efldi móðurmál þeirra og þá tilfinningu að tilheyra málsamfélagi,“ segir Renata Emilsson Pesková, aðjúnkt við Menntavísindasvið. Hún varði doktorsverkefni sitt við Háskóla Íslands nýverið. 

Verkefnið ber heitið: Skólareynsla fjöltyngdra barna: Fjöltilviksrannsókn á Íslandi og var unnið undir leiðsögn Hönnu Ragnarsdóttur, prófessors við Háskóla Íslands. Meðleiðbeinandi var Lars Anders Kulbrandstad, prófessor við Inland Norway University of Applied Sciences í Noregi. Markmið rannsóknarinnar var að kanna samspil tungumálaforða fjöltyngdra nemenda og skólareynslu þeirra í íslenskum grunnskólum. Í rannsókninni var sjónarhorn fjöltyngdra nemenda á eigin tungumálanotkun skoðað ásamt því að leitast var við að varpa ljósi á hlutverk tungumálaforða þeirra í félags- og námslegum aðstæðum.  

Móðurmál styður við sjálfsmynd nemenda 

Viðfangsefni rannsóknarinnar er Renötu nærtækt en hún er fædd í Tékklandi og hefur tékknesku að móðurmáli. „Ég er með marga hatta, er sjálf innflytjandi, móðir fjöltyngds drengs, móðurmálskennari, grunnskólakennari og fræðimaður. Sem móðir ákvað ég að kenna syni mínum tékknesku. Ég stofnaði tékkneskan skóla ásamt annarri móður og var í mörg ár móðurmálskennari og stjórnandi félagasamtakanna. Síðan gerðist tékkneski móðurmálsskólinn aðili að Móðurmáli – samtökum um tvítyngi og ég er búin að vera stjórnarmaður þar í mörg ár. Samtökin vekja athygli á réttindum barna til eigin móðurmáls og vinna að viðurkenningu á móðurmálskennslu hjá yfirvöldum og skólum. Á sama tíma kenndi ég ensku á miðstigi grunnskóla og kynntist skólakerfinu á Íslandi. Ég upplifði að móðurmál nemenda væru ósýnileg í skólum og mikil færni fjöltyngdra nemenda ekki metin að verðleikum. Móðurmálið er þeirra styrkleiki sem er oftar en ekki nýttur í náminu til fulls.“ 

Tæplega eitt hundrað tungumál eru töluð í skólum landsins. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna ótvírætt fram á þörfina á að nota viðeigandi kennslufræði fyrir fjöltyngda nemendur og móta tungumálastefnur í skólum landsins. „Við sjáum vísbendingar um að viðurkenna þurfi fjöltyngi nemenda og notkun tungumálaforða þeirra í námi og félagslegum aðstæðum. Þannig er stutt við sjálfsmynd nemenda og tilfinningu þeirra um að tilheyra. Skólar eru hluti lýðræðislegs samfélags. Þeim er meðal annars ætlað að búa alla nemendur undir framtíðarstörf og virka þátttöku í samfélaginu. Fjölmenningarskólar sem vinna án aðgreiningar að menntun allra nemenda ættu að endurspegla raddir og tungumálaþarfir nemenda sinna.“ 

Margar leiðir til að efla móðurmál 

Stuðningur foreldra og þátttaka þeirra í skólastarfi skiptir miklu máli fyrir velferð barna. Renata hefur sjálf töluverða reynslu af samstarfi heimilis og skóla. Hverjar eru ráðleggingar þínar til foreldra fjöltyngdra barna?

„Ég hvet alla foreldra að huga markvisst að öllum tungumálum barnanna frá unga aldri fram á efri skólastig, fylgjast vel með skólagöngunni og vera í góðum samskiptum við kennara. Móðurmálsskólar bjóða upp á ríkulegt málumhverfi og samfélag barna og fjölskyldna sem eflir tungumál, menntun og sjálfsmynd barnanna. Ef foreldrar leggja áherslu á að þróa móðurmál barnanna og ákveða að sækja móðurmálsskóla, þá er gott að gera bekkjarkennara viðvart um þessi markmið og leita leiða til að  samtvinna móðurmálinu í daglegt skólastarf. Innflytjendaforeldrar og kennarar deila hlutverki og ábyrgð á að viðhalda og þróa tungumálaforða fjöltyngdra nemenda,“ segir Renata. 

Renata er með mörg járn í eldinum og framundan hjá henni eru kennsla við Faggreinadeild og framhaldsrannsókn um fjöltyngdar nálganir í kennslu. Auk þess mun hún sinna áfram að elju störfum í félagasamtökum og vinnu við skipulag alþjóðlegrar ráðstefnu um sjálfbærni móðurmálskennslu sem haldin verður í nóvember. 

„Niðurstöðurnar sýna að öll tungumál nemenda eru hluti af þeirra sjálfsmynd og hafa skýrt hlutverk í lífi þeirra og námi. Skólareynsla fjöltyngdra nemenda var jákvæð, þeim leið vel og náðu góðum árangri, ekki hvað síst vegna þess að þeir sóttu móðurmálskennslu utan skólans, sem efldi móðurmál þeirra og þá tilfinningu að tilheyra málsamfélagi,“ segir Renata Emilsson Pesková, aðjúnkt við Menntavísindasvið. Hún varði doktorsverkefni sitt við Háskóla Íslands nýverið. MYND/ Kristinn Ingvarsson