Skip to main content
5. febrúar 2020

#MeToo hefur haft töluverð áhrif á starf stofnana og fagráða

""

Á þriðjudaginn fór fram málþing þar sem fyrirlesarar úr ýmsum áttum fjölluðu um stöðu mála í starfsemi fagráða og hvaða áhrif #MeToo hefur haft á stjórnendur stofnana og fyrirtækja. Málþingið var liður í framlagi Háskóla Íslands til Jafnréttisdaga sem nú standa yfir.

Þau Helgi Héðinsson, sálfræðingur hjá Líf og sál, Lára V. Júlíusdóttir, hæstaréttarlögmaður og formaður fagráðs Ríkislögreglustjóra, og Þóra Sigfríður Einarsdóttir, sálfræðingur hjá Domus Mentis og formaður fagráðs Háskóla Íslands, fluttu erindi en fundarstjóri var Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Meðal þess sem fram kom á málþinginu var að #MeToo hefur haft töluverð áhrif og benti Helgi á að stjórnendur væru stundum óöruggir því þeir vildu vera vissir um að standa rétt að viðbrögðum þegar upp koma kvartanir um t.d. kynferðislega áreitni. Jafnframt kom fram að kvartanir um kynbundna áreitni virðast fátíðari en kvartanir um kynferðislega áreitni.

Þær Þóra og Lára, sem báðar sinna formennsku í fagráðum, fjölluðu um hvernig starfsemi fagráða hefur þróast og hversu mikilvægt sé að læra af reynslunni, en um leið að hvert mál sé í raun einstakt.

Einnig var rætt um hvort heppilegast væri að sömu aðilar ynnu að meðhöndlun kvartana um einelti og áreitni. Var það mat frummælenda að oftast væri heppilegt að þetta færi saman en þegar um væri að ræða mjög stóra vinnustaði væri tvískipt kerfi betra.

Að málþinginu stóðu Fagráð Háskóla Íslands, Jafnréttisnefnd Háskóla Íslands, Starfsmannasvið Háskóla Íslands og Stúdentaráð Háskóla Íslands.

Fleiri myndir frá málþinginu

Þau Helgi Héðinsson, sálfræðingur hjá Líf og sál, Lára V. Júlíusdóttir, hæstaréttarlögmaður og formaður fagráðs Ríkislögreglustjóra, og Þóra Sigfríður Einarsdóttir, sálfræðingur hjá Domus Mentis og formaður fagráðs Háskóla Íslands, fluttu erindi.