Skip to main content
5. febrúar 2019

Metaðsókn að Vísindavef HÍ árið 2018

""

Metaðsókn var að Vísindavef Háskóla Íslands árið 2018 en samkvæmt gögnum frá Modernus, sem rekur samræmda vefmælingu á Íslandi, voru notendur Vísindavefsins 775 þúsund á árinu og flettu þeir síðum vefsins rúmlega þremur milljón sinnum. Svörin á Vísindavefnum eru orðin rúmlega 12.000 og flettingarnar samsvara því að hvert einasta svar á Vísindavefnum hafi verið skoðað að meðaltali um 250 sinnum yfir árið.

Á árslista sömu vefmælingar var Vísindavefurinn í þriðja sæti yfir mest sóttu vefi ársins og meðaltalsumferð í hverri viku ársins 2018 samsvarar 32 þúsund notendum og 59 þúsund flettingum.

Alls birtust 624 ný svör á árinu 2018 og í hópi þeirra mest lesnu í hverjum mánuði eru svör sem snerta kulda, híbýli og höfuðborgina Reykjavík á fullveldisárinu 1918 en einnig koma ísbirnir, six pack, Ævar vísindamaður, landsnámsmenn og elstu ljósmyndir af Íslendingum við sögu. Lista yfir vinsælustu svör hvers mánaðar á síðasta ári má finna á Vísindavefnum

Landsmenn hafa sannarlega verið fróðleiksfúsir og tekið Vísindavefnum vel því gróflega má áætla að þeir hafi sent um 60 til 70 þúsund spurningar til Vísindavefsins frá því hann var stofnaður 29. janúar árið 2000. Það samsvarar um 10 spurningum á dag, hvern einasta af öllum þeim 6.900 dögum sem liðnir eru frá því að Vísindavefurinn tók til starfa!

Graf sem sýnir vöxt í heimsóknum á Vísindavefinn undanfarin ár