María Dóra verðlaunuð fyrir rannsóknir tengdar starfsráðgjöf | Háskóli Íslands Skip to main content
8. ágúst 2019

María Dóra verðlaunuð fyrir rannsóknir tengdar starfsráðgjöf

María Dóra Björnsdóttir, doktor í náms- og starfsráðgjöf og deildarstjóri Náms- og starfsráðgjafar Háskóla Íslands, hlaut á dögunum viðurkenningu frá evrópskum samtökum um náms- og starfsráðgjöf fyrir framlag sitt til rannsókna á sviðinu. 

Samtökin sem um ræðir nefnast European Society of Vocational Designing and Career Counselling (ESVDC) en markmið þeirra er að stuðla að rannsóknasamstarfi og þróun á alþjóðavettvangi á sviði náms- og starfsráðgjafar. Um er að ræða samfélag vísindafólks sem sett var á laggirnar árið 2011 og vinnur saman að rannsóknum en verðlaunar jafnframt það sem vel er gert innan fagsins.

ESVDC veitir m.a. verðlaun fræðafólki sem hefur nýlega lokið doktorsprófi í náms- og starfsráðgjöf og þykir hafa staðið sig framúrskarandi vel snemma á vísindaferlinum (e. Early Career Researchers Award). Þessi verðlaun koma í hlut Maríu Dóru í ár. Hún varð fyrst til að ljúka doktorsprófi í náms- og starfsráðgjöf frá Háskóla Íslands á síðasta ári en doktorsverkefni hennar sneri að því að meta áhrif tveggja nálgana í náms- og starfsfræðslu fyrir framhaldsskólanemendur. 

Þetta eru ekki fyrstu verðlaunin sem María Dóra hlýtur fyrir störf sín og rannsóknir því í fyrra fékk hún viðurkenningu Félags náms- og starfsráðgjafa hér á landi fyrir vel unnin störf í þágu fagsins. 

María Dóra státar BA-prófi í sálfræði en hún lauk bæði diplómanámi í námsráðgjöf og meistaraprófi í náms- og starfsráðgjöf áður en hún hóf doktorsnám í greinininni sem hún lauk eins og fyrr segir á síðasta ári. María Dóra hefur starfað sem náms- og starfsráðgjafi við Háskóla Íslands frá árinu 1999, þar af sem deildarstjóri frá árinu 2011. Hún hefur einnig sinnt kennslu í náms- og starfsráðgjöf við Háskóla Íslands. 

María Dóra Björnsdóttir