Skip to main content
20. apríl 2020

Margslunginn kynjaveruleiki greindur í nýju edX-námskeiði HÍ

""

Háskóli Íslands hefur opnað fyrir skráningu í fimmta opna netnámskeiðið sem skólinn hefur þróað innan edX-samstarfsins en það nefnist Kyngervi og samtvinnun (e. Gender and Intersectionality) og hefst 11. maí nk. Þar læra þátttakendur að beita þverfaglegum aðferðum jafnréttis- og kynjafræða til að greina trúartexta og hefðir, stéttaskiptingu, misrétti milli kynþátta og þjóðernishyggju. Námskeiðið er jafnframt þáttur í starfsemi Alþjóðlegs jafnréttisskóla (GRÓ-GEST) sem er rekinn við Hugvísindasvið Háskóla Íslands undir merkjum Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO.

EdX er alþjóðlegt samstarfsnet háskóla um rekstur opinna netnámskeiða sem bandarísku háskólarnir Harvard og MIT leiða og Háskóli Íslands hefur verið aðili að undanfarin ár. Tilgangur þátttöku Háskólans í edX er að auka aðgengi að öflugu og spennandi námi, koma þekkingu innan skólans á framfæri á alþjóðavettvangi og þróa kennsluaðferðir í takt við örar breytingar á tækni og samfélagi.

Kyngervi og samtvinnun er nýjasta alþjóðlega netnámskeið Háskóla Íslands innan edX-samstarfsins er á sviði jafnréttis-og kynjafræða. Þekking á samtvinnun kyngervis við ólíkar menningarlegar og samfélagslegar hugmyndir er ekki aðeins mikilvæg í fræðilegu samhengi heldur heldur setur hún flesta ef ekki alla þætti mannlegrar tilveru í nýtt ljós. Námskeiðið er hugsað bæði sem inngangur að jafnréttis- og kynjafræðum og fyrir þá sem vilja hressa upp á þekkingu sína á fagsviðinu. Námsefnið er í formi bókmenntatexta, fræðigreina, vefsíðna, hljóðupptakna og sjónræns efnis af ýmsu tagi.

Stuðst er við dæmi úr dægurmenningu, bókmenntum og mankynssögunni í kynjafræðilegri greiningu á trúarlegum textum, hefðum, siðum, stéttaskiptingu, kynþáttamisrétti, kynverund og þjóðernishyggju. 

Kennarar í námskeiðinu eru þau Giti Chandra, rithöfundur og vísindamaður, og Thomas Brorsen Smidt, verkefnis- og rannsóknastjóri, sem bæði starfa fyrir Jafnréttisskólann (GRÓ-GEST). 

Nú þegar hafa yfir 600 nemendur skráð sig í námskeiðið en skráning fer fram á vefsíðu edX

Fimmta námskeið Háskólans innan edX

Kyngervi og samtvinnun er fimmta netnámskeiðið sem Háskóli Íslands býður upp á innan edX-samstarfsins en áður hefur skólinn verið með námskeið í norrænum miðaldafræðum, eldfjallavöktun og kvikuhreyfingum, sauðfé í landi elds og ísa og menningarnæmi í menntun.

Vefsíða Háskóla Íslands innan edX-samstarfsins

""